Viðskipti, ekki fjársvik

Eitt þekktasta dæmið um viðskipti, þar sem sama persóna situr beggja vegna borðs við kaup og sölu, er kaup Baugs á Vöruveltunni, móðurfélagi 10-11 verslananna árið 1999. Var Jón Ásgeir Jóhannesson ákærður fyrir þessi viðskipti, en ákærunni var árið 2006 vísað frá héraðsdómi með þeim rökum að um viðskipti væri að ræða en ekki auðgunarbrot. Frávísunin var staðfest af Hæstarétti.

Burtséð frá niðurstöðu dómsins er áhugavert að skoða viðskiptin sjálf í ljósi eignatengsla þeirra fyrirtækja sem í hlut áttu. Málið vakti m.a. athygli vegna þess að forsvarsmenn Baugs, forstjórinn Jón Ásgeir Jóhannesson og aðstoðarforstjórinn Tryggvi Jónsson, lögðu mikið á sig til að fela raunverulegt eignarhald Vöruveltunnar. Í þessari umfjöllun verður ekki farið yfir þennan þátt málsins, heldur aðeins viðskiptin sjálf og eignatengsl þeirra sem í hlut áttu.

Þann 7. október 1998 keypti Jón Ásgeir Vöruveltuna á 1,15 milljarða króna. Síðar var hluti hlutafjár Vöruveltunnar seldur félaginu Fjárfari ehf., sem var í raun í eigu Jóns Ásgeirs. Þá var hluti seldur Íslandsbanka og Kaupþingi.

Þegar almenningshlutafélagið Baugur kaupir Vöruveltuna þann 21. maí 1999 átti Jón Ásgeir því 25% í félaginu, 45% voru í eigu Fjárfars og 30% í eigu Kaupþings og Landsbanka.

Greiddi Baugur 1,48 milljarða fyrir Vöruveltuna og fékk Jón Ásgeir 1,04 milljarða í sinn hlut. Greiddi Baugur því 325 milljónum hærra verð fyrir Vöruveltuna, en Jón Ásgeir hafði greitt fyrir félagið nokkrum mánuðum fyrr. Vegna kostnaðar við viðskiptin hagnaðist Jón Ásgeir og fjárfestingarfélagið Gaumur hins vegar að minnsta kosti um 200 milljónir króna. Gaumur var á árunum 1998 og 1999 í eigu Jóns Ásgeirs og fjölskyldu hans.

Baugur keypti hins vegar ekki allar eignir, sem fylgdu með þegar Jón Ásgeir keypti Vöruveltuna haustið 1998. Fasteignir félagsins voru nefnilega seldar Litla fasteignafélaginu, félagi undir óbeinni stjórn Jóns Ásgeirs, í desember 1998. Greiddi Litla fasteignafélagið 217 milljónir króna fyrir fasteignirnar, en seldi þær aftur til Stoða, dótturfélags Baugs, sex mánuðum síðar fyrir 357 milljónir króna. Í kjölfarið var Litla fasteignafélagið sameinað Gaumi, sem þar með hagnaðist um 140 milljónir á viðskiptunum.

Högnuðust Jón Ásgeir og Gaumur því að minnsta kosti um 340 milljónir á viðskiptunum á kostnað hluthafa Baugs.

Í rökstuðningi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að atburðirnir, sem hér hafa verið raktir, séu ekki lýsing á fjársvikum heldur viðskiptum, sem vera kann að hafi verið óhagstæð fyrir Baug hf. en hugsanlega hagstæð fyrir Jón Ásgeir og aðra.

Hins vegar ber að hafa í huga að málið, eins og öll svokölluð Baugsmál, var opinbert mál, höfðað af saksóknara. Í slíkum málum hvílir sönnunarbyrði á ákæruvaldinu og harðari sönnunarkröfur eru gerðar.

Í lögum nr. 2/1995 um hlutafélög má aftur á móti finna ákvæði eins og í 76. gr. Þar segir að stjórn og framkvæmdastjóri félags megi ekki gera neinar þær ráðstafanir, sem bersýnilega eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.

Árið 1999 átti Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins 3,1% hlut í Baugi og Lífeyrissjóður verzlunarmanna önnur 4,45%. Forsvarsmenn sjóðanna gerðu ekki athugasemdir við viðskiptin á opinberum vettvangi.

Á morgun verður fjallað um viðskipti FL Group og Fons með danska flugfélagið Sterling í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK