Kaupþing skuldar 2432 milljarða

Skilanefnd gamla Kaupþings og sérfræðingar innan bankans, meta eignir Kaupþings á ríflega 618 milljarða króna. Á móti eignum eru skuldir félagsins tæplega 2432 milljarðar króna. Þetta kemur fram í skýrslu um stöðu bankans sem lögð var fram á fundi kröfuhafa í dag.

Af eignunum nema lán til viðskiptavina 250 milljörðum króna. Skuldabréf nýja Kaupþings eru að fjárhæð 170 milljarðar og lán til lánastofnanna eru að fjárhæð 100 milljarðar.

Greining Glitnis segir í Morgunkorni sínu, að því sé ljóst að nokkuð fáist upp í kröfur á bankann. 

Í skýrslunni kemur fram, að skilanefndin hafi selt eignir fyrir um 65 milljónir evra, jafnvirði um 9,7 milljarða króna. Fram kemur, að kröfuhafar á bankann hafa lýst því yfir að þeir kæri sig ekki um brunaútsölur á eignasafninu, heldur vilji þeir að nægur tími gefist til að vinna úr eignunum, sem eru helst útlán, og virði þeirra verði þannig hámarkað.

Greiðslustöðvun Kaupþings rennur út 13. þessa mánaðar. Fram kemur í skýrslunni að tveir raunhæfir kostir séu í stöðunni: framlenging greiðslustöðvunarinnar eða gjaldþrot bankans. Það sé skoðun bæði skilanefndarinnar og aðstoðarmanns í greiðslustöðvun, að hagsmunum kröfuhafa sé best gætt með áframhaldandi greiðslustöðvun og hafi verið ákveðið að óska eftir framlengingu hennar um 9 mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK