Vilja að Baugur fari í þrot

Höfuðstöðvar Baugs við Túngötu.
Höfuðstöðvar Baugs við Túngötu. mbl.is / Árni Sæberg

Íslandsbanki og skilanefnd Glitnis vilja að Baugur Group fari í þrot og telja hugmyndir félagsins um endurskipulagningu fullkomlega óraunhæfar, en tekist var á um áframhaldandi greiðslustöðvun félagsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Lögmenn bankanna sögðu að kröfuhafar Baugs hefðu verið blekktir með villandi upplýsingum um stöðu félagsins.

Ragnar H. Hall, aðstoðarmaður Baugs Group í greiðslustöðvun, sagði að það væri alveg ótvírætt að staða Íslandsbanka og Glitnis myndi ekki skaðast ef Baugi yrði veitt áframhaldandi greiðslustöðvun.

„Af hverju er sá sem er með veðtryggingar fyrir bróðurparti sinna krafna að mótmæla áframhaldandi greiðslustöðvun,“ sagði Ragnar og vísaði til þess að bæði skilanefnd Glitnis og Íslandsbanki hefðu veð á bakvið stærstan hluta krafna sinna en aðrir smærri kröfuhafar ekki. Ragnar sagði að Baugi hefðu verið tryggðar tekjur til að standa fyrir útgjöldum. Hann sagði jafnframt að ekkert myndi fást greitt upp í óveðtryggðar kröfur á Baug Group ef félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Ekkert liggur fyrir um raunhæfar aðgerðir
Andri Árnason, lögmaður skilanefndar Glitnis, sagði að ekkert lægi fyrir um raunhæfar aðgerðir Baugs til að standa í skilum. Fyrirliggjandi gögn bentu til þess að Baugi væri skylt að sækja þegar í stað um gjaldþrotaskipti. Þá væri ljóst að gögn um fjárhagsstöðu Baugs sem kynnt hefðu verið fyrir kröfuhöfum virtust ekki vera í neinu samræmi við þau gögn sem áður hefðu verið kynnt.

„Gögn sem kynnt voru á kröfuhafafundi virðast ekki vera nýjustu upplýsingar um stöðu félagsins,“ sagði Andri. Hann sagði að greiðslustöðvun myndi ekki þjóna neinum lagalegum tilgangi. Glitnir væri stærsti kröfuhafi Baugs og bankinn ætti kröfur á félagið upp á vel á þriðja hundrað milljónir punda.  

Andri benti á að BG Holding og F Capital væru komin í ígildi skiptameðferðar erlendis og því væri verulegur vafi á því að veðsetningarnar í félögunum myndu koma að notum. Fyrirsjáanlegt væri að stór hluti krafna Glitnis væri í reynd óveðtryggður sem þýddi að Glitnir væri stór, ef ekki stærsti, óveðtryggði kröfuhafi félagsins. Synjun frekari greiðslustöðvunar væri því liður í því að verja hagsmuni Glitnis.

Staða félagsins mun verri
Andri sagði að staða Baugs væri miklu verri en kynnt hefði verið fyrir kröfuhöfum. Eina úrræðið sem virtist vera í spilunum væri nauðasamningur með algjörlega óvissri fjármögnun. Ekkert væri í hendi um hver kæmi til með að fjármagna nauðasamninga félagsins upp á tugi milljarða.

Andri sagði að verulegt ósamræmi væri milli þeirrar stöðu sem kynnt var á fundi með kröfuhöfum og þeirra gagna sem Baugur hefði kynnt fyrir Glitni. Gert væri ráð fyrir því að samanlagt verðmæti dótturfélaga Baugs væri 1.113 milljónir punda. Hins vegar hefði Project Sunrise, sérstök áætlun um endurreisn Baugs, verið kynnt í janúar á þessu ári og þar væru þessi sömu félög talin upp og þar væri gert ráð fyrir samanlögðu verðmæti þeirra upp á 355 milljónir punda.  Allt annað verðmat hafi því verið á undirliggjandi eignum sem máli skipta í Project Sunrise en á fundi með kröfuhöfum. Andri sagði að engin skýring lægi fyrir af hálfu Baugs Group á þessum mismun á verðmæti undirliggjandi eigna félagsins, þrátt fyrir að fulltrúi Glitnis á kröfuhafafundinum hefði gert athugasemdir við þennan mismun og óskað eftir skýringu á honum.

Andri sagði að dómari gæti ekki veitt greiðslustöðvun nema lagaskilyrði væru fyrir hendi. Því bæri dómaranum að meta það sjálfstætt en ekki endilega taka mið af mótmælum annarra kröfuhafa. Það sem þessi skilyrði væru ekki fyrir hendi bæri dómara því að synja um frekari greiðslustöðvun.

Andri vísaði í dóm í máli MP banka gegn Hanza þar sem Hanza var veitt áframhaldandi greiðslustöðvun. Í Héraðsdómi hefðu verið lögð fram gögn um líklegt verðmæti West Ham, sem væri eina eign Hanza. Engu slíku væri til að dreifa um eignir Baugs Group í þessu máli. Hann vísaði jafnframt til þess að mörg félaga Baugs hefðu þegar verið tekin yfir. Baugur hefði því engan umráðarétt yfir þeim.

„Það yfirlit sem kynnt var á kröfuhafafundi fær ekki staðist,“ sagði Andri. Hann sagði að í yfirliti, sem kynnt hefði verið á fundi með kröfuhöfum, hefði verðmæti BG Holding, dótturfélags Baugs, verið kynnt 847 milljónir punda. Andri sagði að kynning fyrir kröfuhöfum yrði ekki skilin öðruvísi en svo en að þetta væri eign Baugs Group og því myndu þessir peningar skila sér til Baugs ef BG Holding yrði slitið. Þetta væri einfaldlega ekki rétt því Landsbankinn hefði sett BG Holding í greiðslustöðvun og Baugur hefði því engan umráðarétt yfir eignum BG Holding. Einnig væri himinn og haf á milli verðmætis BG Holding samkvæmt Project Sunrise og því verðmæti sem kynnt hefði verið fyrir kröfuhöfum. „Það verður að gera meiri kröfur, þegar félög eru að fara í greiðslustöðvun, til þeirra fjárhagslegu upplýsinga sem eru lögð fyrir kröfuhafa,“ sagði Andri.

Íslandsbanki á kröfur upp á 6 milljarða
Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður Íslandsbanka, sagði að bankinn ætti kröfur upp á um 6 milljarða króna á Baug Group. Kröfurnar styddust við tryggingar á 2.-4. veðrétti í BG Holding. Íslandsbanki mæti það svo að það væri verulegum vafa undirorpið að nokkurt fengist upp í kröfur þrátt fyrir veðtryggingar. Ekki væri forsvaranlegt að veita framlengingu á greiðslustöðvun. Rökstuddur grunur væri um það að Baugur hefði vísvitandi veitt rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins. Félaginu væri jafnframt sýnilega skylt að óska eftir gjaldþrotaskiptum.

Ingvi Hrafn sagði að fyrir ári síðan hefði legið fyrir að Baugur ætti í fjárhagserfiðleikum. Í mars í fyrra hefði Kaupþing gert samninga um yfirtöku fjármögnunar í Jane Norman og Landsbankinn keypt hluti í Iceland Foods sem hefði gert Baug kleyft að greiða niður skuldir að einhverju leyti. Jafnframt hefðu stóru bankarnir þrír keypt verulegt magn eigna af Baugi til að gera félaginu mögulegt að greiða niður skuldir.

Ingvi Hrafn sagði að þegar að starfsmenn Íslandsbanka hefðu farið yfir níu mánaða uppgjör Baugs hefði komið í ljós að eigið fé félagsins væri líklega uppurið. Það vekti jafnframt athygli að níu mánaða uppgjör Baugs, sem virtist byggt á veikum grunni, hefði verið kynnt nú til að sýna fjárhagsstöðu félagsins.  Ingvi Hrafn sagði jafnframt að Baugur hefði gengist í ábyrgðir fyrir félög sem stæðu mjög illa. Hann nefndi meðal annars ábyrgð á lánum sem Straumur veitti Styrk Invest og Stoðum Invest. Um væri að ræða skuldbindingar upp á tugi milljarða króna sem kynnu að lenda á Baugi Group.

„Það er rökstuddur grunur um að [Baugur] hafi vísvitandi veitt upplýsingar sem eru rangar og villandi,“ sagði Ingvi Hrafn. 

Hann sagði að hugmyndir Baugs væru fullkomlega óraunhæfar. Engin skynsamleg áætlun um endurskipulagningu félagsins lægi fyrir. Eignir væru líklega allt að 750 milljónum punda minna virði en gert hafi verið ráð fyrir í kynningu til kröfuhafa. „Það er meiriháttar niðurfelling á skuldum sem þarf að eiga sér stað. Hér var rætt um 80% niðurfellingu. Ég held að það þurfi enn meiri [niðurfellingu] og jafnframt enn meiri stuðning,“ sagði Ingvi Hrafn. Hann sagði að áframhaldandi greiðslustöðvun Baugs þjónaði engum tilgangi. Verðmætustu eignir Baugs væru ekki lengur í höndum félagsins. Því yrði ekki séð að endurskipulagning myndi fela í sér að úr henni kæmi lífvænlegt fyrirtæki. Félagið hefði svo að segja lokið starfsemi, flestum starfsmönnum hefði verið sagt upp og skrifstofum lokað.

Ragnar H. Hall andmælti því að rangar upplýsingar hefðu verið lagðar fram á fundi með kröfuhöfum. Project Sunrise-áætlunin hefði verið unnin í náinni samvinnu við bankana. Hann sagði jafnframt að með aðgerð Landsbankans um að setja BG Holding í greiðslustöðvun hefði verið alveg ljóst að ekkert yrði af áætlun á grundvelli Project Sunrise. Hann sagði að það væri hæpin fullyrðing að lítið myndi fást upp í veðkröfur Glitnis. Það væri ekki alveg rétt að Baugur hefði hætt starfsemi og skrifstofum endanlega lokað. Hann benti á að nokkur starfsemi væri virk í höfuðstöðvum Baugs við Túngötu og sagði að margir ráðningarsamningar lykilstarfsmanna væru enn virkir.

Arngrímur Ísberg, héraðsdómari, mun kveða upp úrskurð um hvort Baugur Group fái áframhaldandi greiðslustöðvun á miðvikudaginn næsta. Ef félagið fær ekki áframhaldandi greiðslustöðvun fer það í gjaldþrotameðferð og skipaður verður skiptastjóri.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK