Spá minnkandi verðbólgu

mbl.is/Ómar

Greining Íslandsbanka spáir 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs í mars. Ef spáin gengur eftir verður verðbólga, mæld á tólf mánaða tímabili, 16,2%. Hún er nú 17,6% en fór hæst í 18,6% í janúar síðastliðnum.

 „Áhrif gengishruns krónu á haustmánuðum í fyrra eru nú að fjara út, og raunar eru þegar farin að sjást merki um jákvæð áhrif gengisstyrkingar síðustu mánaða í þeim liðum VNV sem hraðast bregðast við gengisbreytingum, s.s. innfluttri ferskvöru og eldsneyti.

Á móti koma áhrif af útsölulokum sem enn gætir í liðum á borð við föt og skó, sem og húsgögn og heimilisbúnað. Póst- og símakostnaður mun að mati okkar einnig hækka talsvert í kjölfar verðskrárhækkunar annars af stóru símafyrirtækjunum.

Áhrif annarra liða munu verða minni ef spá okkar gengur eftir," að því er segir í verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka.

 Deildin telur að verðbólga muni halda áfram að minnka það sem eftir lifir árs. „Djúp efnahagslægð gengur nú yfir Ísland, atvinnuleysi stefnir í sögulegar hæðir, verðlækkun mun einkenna íbúðamarkað á komandi ársfjórðungum og hrávöruverð hefur lækkað verulega frá miðju síðasta ári á heimsmarkaði. Auk heldur hefur krónan sótt talsvert í sig veðrið frá síðasta fjórðungi nýliðins árs og gerum við ráð fyrir að frekari styrking sé í pípunum á meðan núverandi gjaldeyrishöft og háir skammtímavextir eru við lýði.

Allt leggst þetta á  eitt við að halda aftur af hækkun VNV. Þannig spáum við að verðbólga verði komin niður fyrir 4% í upphafi næsta árs og að verðbólgan verði undir 2,5% markmiði Seðlabankans allan seinni hluta þess árs."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK