Klárt að vitlausar ákvarðanir voru teknar

Hrund Rudolfsdóttir
Hrund Rudolfsdóttir

Hrund Rudolfsdóttir, fráfarandi formaður Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) segir það   klárt að vitlausar ákvarðanir hafa verið teknar á mörgum stöðum samfélagsins í undanfara hrunsins, sennilega er þar enginn undanskilinn hvort sem um er að ræða stjórnvöld, eftirlitsstofnanir eða atvinnulífið. Segir hún að nokkuð ljóst sé að fleiri fyrirtæki muni falla í valinn á næstunni. Þetta kom fram í ávarpi hennar á aðalfundi SVÞ í dag.

„Á þessum sex mánuðum höfum við horft á það að fjórir af stærstu bönkum landsins féllu með hvelli, neyðarlög sett í landinu, utanríkisviðskipti lamast, bálför íslensku krónunnar fór fram, gjaldeyrishöft, stjórnarskipti, boðað til kosninga og nú síðast erum við að sjá óbein áhrif þessa alls þegar hvert fyrirtækið á fætur öðru riðar til falls og er nokkuð ljóst að ekki eru öll kurl komin til grafar, fleiri fyrirtæki munu falla í valinn áður en rykið sest.  Þessir atburðir eru svo yfirgengilegir að það er erfitt að finna orð sem ná yfir svona tímabil, náttúruhamfarir, er kannski eina orðið sem lýsandi og við Íslendingar, börn náttunnar, skiljum vel."

Hún segir það bæði eðlilegt og nauðsynlegt við svona aðstæður að kryfja atburðarásina og reyna að skilja orsakasambönd og ástæður. 

„Ákvarðanirnar og mistök í kjölfar þeirra hafa bara verið misstór og vegið misþungt inní atburðarásina og svo er það alltaf spurningin hvort um er að ræða mistök á grundvelli þess að vita ekki betur, eða hvort traust og ábyrgð hafi verið misnotað.

Sjálfsagt munu margar bækur á endanum verða skrifaðar um þetta tímabil allt og aðdraganda þess, sitthvað mun hverjum sýnast, og kannski munum við aldrei ná fullkomlega utanum þessa hrikalegu og eyðileggjandi atburðarás."

Með ólíkindum að enginn kannist við ábyrgð

Hrund segir að það sé með ólíkindum, að á meðan efnahagslífið standi í ljósum logum og ekki stendur steinn yfir steini að enginn innan ríkisstjórnarflokkanna fyrrverandi, á  Alþingi eða innan eftirlitsstofnana kannist við neina hrukku eða ósamfellu í sinni starfsemi.

„Það verður hver að eiga það sem hann á og þar er atvinnulífið auðvitað engin undantekning, hroki er því miður það einkunnarorð íslenskum athafamönnum er gefið erlendis. Sú tálsýn sem við höfðum um að Ísland væri mest og best,var því miður ekki að öllu leyti rétt.

Vegurinn fram er varðaður viðurkenningu á þeirri staðreynd að hér voru gerð mörg afdrifarík mistök og að við eigum töluvert ólært."

Segir að nýja Ísland verði að byggja á fjölbreyttum stoðum

Fráfarandi formaður kom inn á framtíð Íslands sem hún segir að verði að byggja á eins mörgum stoðum og mögulegt er „og hér á ég ekki bara við þá sorglegu staðreynd að konur hafa ekki setið til borðs til jafns á við karla og þeirra starfskraftar séu stórlega vannýttir, heldur líka að við verðum að tryggja að einstaklingar af báðum kynjum, með alla mögulegan menntunarbakgrunn og á öllum aldri komi að stjórnun og ákvarðanatökum, svo við lendum ekki í því aftur að fámennur of samlitur hópur taki of samlitar ákvarðanir.

Kostirnir við fámennt samfélag eru margir en ókostirnir eru þeir að netverkið er þétt og getur ráðið of miklu ef ekki er að gætt, frændsemisráðningar, skortur á gagnrýni og rangar ákvarðanatökur, hvort sem er á grundvelli tengsla, vinskapar eða pólitískra skoðana valda miklum skaða. 

Vegna smæðar samfélagsins verða Íslendingar að vera sér meðvitaðri en aðrar þjóðir um þetta og vera kaþólskari en páfinn í því að tryggja að allri ábyrgð, hvaða nafni sem hún nefnist,  sé úthlutað til einstaklinga á grundvelli faglegra raka, til að tryggja að heilbrigð gagnrýni sé viðhöfð, réttar ákvarðanir teknar og fjölskrúðug atvinnulíf blómstri."

Jón Sigurðsson eða Jónína Sigurðardóttir óskast

Hún segist telja að okkar helsta vandamál í dag er það að okkar vantar stjórnmálalegan leiðtoga.  „Okkar vantar þann sem varðar veginn fram úr þessum erfiðu aðstæðum.  Í baráttunni fyrir sjálfstæði Íslendinga taldi Jón Sigurðsson kjark í þjóðina með eftirfarandi orðum sem eru ótrúlega viðeigandi í dag, en hann sagði :

Það þarf annað en hjalið tómt til að hrinda Íslandi á fætur aftur! Það þarf atorku og ráðdeild og framsýni og þollyndi!  Það þarf meira en fárra manna afl!  Það þarf dug heillar þjóðar!“ 

Ég auglýsi hér með eftir nýjum Jóni Sigurssyni eða Jónínu Sigurðardóttur til að mála framtíðina fyrir þjóðina og hvetja hana til dáða."

Margrét Kristmannsdóttir nýr formaður SVÞ

Á aðalfundinum tók Margrét Kristmannsdóttir við formannsembættinu hjá SVÞ en auk hennar komu ný í stjórn þau Guðmundur Jónsson, Norvik, Sigríður Margrét Oddsdóttir, Skjá miðlum og Finnur Árnason Högum. 

Fyrir í stjórn og gáfu kost á sér aftur voru Ásbjörn Gíslason, Samskipum, Björn Ágústsson MEBA og Gunnar Karl Gunnarsson Skeljungi. 

Úr stjórn viku Brynjólfur Bjarnason Símanum, Jóhanna Waagfjörð Högum og Sturla Eðvarðsson Samkaupum.
Margrét Kristmannsdóttir
Margrét Kristmannsdóttir
Ný stjórn Samtaka verslunar og þjónustu
Ný stjórn Samtaka verslunar og þjónustu
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK