Fjármunir fluttir vegna nýrra fjárfestinga

Samson ehf. segir að enginn fótur sé fyrir ályktunum um að fjármunum félagsins hafi verið komið undan eða í skjól og felur, eða þeir runnið til eigenda félagsins. Í öllum tilfellum þegar fjármunir voru fluttir til hafi verið um að ræða fjárfestingar eða viðskiptalán vegna fjárfestinga í nýjum verkefnum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Samson:

„Fjölmiðlar hafa birt hluta úr skýrslu þrotabússtjóra Samson ehf. frá því febrúar sl. þar sem fram kemur að erfitt hafi reynst að fá upplýsingar um tiltekin viðskipti félagsins. Í fréttum eru einstakar fjárfestingar tilgreindar.  Rétt er að fram komi að frá því skýrsla þessi var skrifuð hafa fulltrúar Samson ehf. átt í samskiptum við þrotabússtjóra og m.a. hefur honum borist skýrslu endurskoðanda þar sem  ljósi er varpað á umrædd mál.
 
a.      Í skýrslunni segir að greiðslur frá Samson ehf. að fjárhæð 580 milljónir króna hafi runnið til Opal Global Invest. Þetta er ekki rétt. Hið rétta er að Samson ehf. átti í lánaviðskiptum á árinu 2004 við Opal Global Invest sem rann síðar saman við Samson Global Holding sem er félag skráð í Luxemburg og í eigu sömu aðila og Samson ehf. Fjármunir þessir voru á sínum tíma notaðir til fjárfestinga í skráðum íslenskum félögum.  Allar kröfur Samson ehf. á Opal Global Holding eru í dag fullgildar kröfur á Samson Global Holding.

b.      Í skýrslu þrotabússtjóra kemur einnig fram að þrotabúið reyni að innheimta kröfur á Bell Global Lux vegna hafnarverkefna í Pétursborg. Það er ekki rétt að Samson ehf. eigi kröfu á Bell Global Lux vegna þessa verkefnis. Hið rétta er að Samson ehf. er hluthafi í félagi sem veitir skipafélögum aðstöðu og þjónustu í höfn Pétursborgar í Rússlandi. Félagið er í rekstri en í ljósi ástands á heimsmörkuðum er erfitt að segja til um raunverulegt verðmæti hlutar þrotabúsins í því félagi.

c.       Í skýrslu þrotabússtjóra er einnig getið lána Samson ehf. til Fjárfestingafélagsins Grettis ehf. og félaga sem fjárfestu í útgáfufélaginu Árvakri. Tilgangur Samson var fjárfestingar og lánastarfsemi.  Í samræmi við tilgang sinn og rekstur hafði Samson lánað fé inn í nokkur verkefni, sem var þó óverulegur hluti eigna félagsins. Allar þessar lánveitingar eru að fullu rekjanlegar og skýranlegar. Um hinar tilteknu kröfur er það að segja að óvissa ríkir um eignastöðu umræddra félaga. Staða Fjárfestingafélagsins Grettis ehf. er óljós þar sem helstu eignir þess eru í íslenskum hlutafélögum, m.a. Eimskip og Icelandic Group, sem átt hafa í erfiðleikum og hlutafé hefur verið afskrifað að stórum hluta. Þá hefur hlutafé í Árvakri einnig verið afskrifað.

Að ofansögðu liggur ljóst fyrir að umræddar athugasemdir þrotabússtjóra varða einvörðungu viðskiptalán Samson ehf. til tiltekinna félaga vegna fjárfestinga þeirra. Umrædd viðskipti áttu sér stað löngu fyrir fall íslensku bankanna og á tíma þegar fjárhagur einkahlutafélagsins Samson ehf. var mjög sterkur.  Enginn fótur er því fyrir ályktunum um að fjármunum Samson ehf. hafi verið komið undan eða í skjól og felur, eða runnið til eigenda félagsins. Í öllum tilfellum var um að ræða fjárfestingar eða viðskiptalán vegna fjárfestinga í nýjum verkefnum."
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK