Spurði um sölu á SPRON til MP

Gunnar Haraldsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins og Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sátu fyrir …
Gunnar Haraldsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins og Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sátu fyrir svörum á fundi viðskiptanefndar í morgun. mbl.is/Golli

Gunnar Svavarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins (FME) Gunnar Haraldsson, um sölu á eignum SPRON til MP banka á fundi viðskiptanefndar í morgun. Gunnar benti á að DV hefði birt upplýsingar um að FME væri að rannsaka viðskipti með stofnbréf í BYR og aðkomu MP banka að þeim viðskiptum, en á sama tíma væri FME að selja eignir SPRON til MP banka. Gunnar spurði einnig um þær athugasemdir sem FME gerir við að Morgunblaðið hefði birt upplýsingar úr lánabókum bankanna, en í bréfi til tveggja blaðamanna blaðsins kemur fram að FME telji að þeir hafi mögulega brotið lög um bankaleynd með skrifum sínum.

Gunnar segir að tilgangur sinn með spurningunum hefði verið sá að átta sig heildarmyndinni um hvað FME væri að hugsa með sínum aðgerðum. „Ég spurði stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins um hvernig það færi heim og saman að vera með banka í einhverskonar rannsókn vegna mögulegra innherjaviðskipta eða óeðlilegra samskipta, og að vera á sama tíma að selja honum eignir. Ég vildi einfaldlega sjá heildarmyndina um hvernig eftirlitið væri að hugsa."

Hann segist engu nær um regluverk FME eftir svör stjórnarformannsins. „Hann sagði öll þessi mál vera á viðkvæmu stígi og svaraði engu til um hvaða reglur væru í gangi. Ég er í sjálfu sér engu nær, en eftir stendur að fjölmiðill vék að því að það væru stórfelld innherjasvik í gangi og á sama tíma var Fjármálaeftirlitið að selja sömu aðilum og voru til rannsóknar eignir undan SPRON, sem Fjármálaeftirlitið hafði þá tekið yfir. Ég vonast þó til að þessi mál séu öll á hreinu og ekkert óeðlilegt sé á ferðinni."

Gunnar Svavarsson, þingmaður samfylkingar.
Gunnar Svavarsson, þingmaður samfylkingar. mbl.is/Alþingi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK