Ríkið eignast Teymi í sumarlok

Gert er ráð fyrir því að Nýi Landsbankinn eignist 57% …
Gert er ráð fyrir því að Nýi Landsbankinn eignist 57% hlut í Teymi, sem m.a á og rekur Vodafone, í sumarlok. mbl.is/Golli

Gert er ráð fyrir því að Nýi Landsbankinn eignist 57% hlut í Teymi, sem m.a á og rekur Vodafone og upplýsingatæknifyrirtækin Kögun og Skýrr, í sumarlok. Landsbankinn var langstærsti kröfuhafinn í Teymi, en í áætlun um endurskipulagningu félagsins sem kynnt var fyrir kröfuhöfum fyrir helgi er gert ráð fyrir að kröfum verði breytt í hlutafé.  

Samþykkt var á hluthafafundi Teymis sem haldinn var í morgun að leita nauðasamnings við kröfuhafa félagsins til þess að ráða bót á fjárhagslegri stöðu þess og forða félaginu frá gjaldþroti.

Gert er ráð fyrir að beiðni um nauðasamningsumleitanir verði lögð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í dag eða á morgun, að sögn Kristins Hallgrímssonar, hæstaréttarlögmanns og stjórnarmanns í nýrri stjórn Teymis, en ný stjórn var kjörin á hlutahafafundi í morgun.

Á fundinum í morgun var samþykkt að hlutafé félagsins yrði lækkað að fullu, þ.e. úr 3.048.937.613 króna í 0 krónur. Þá var samþykkt að að hlutafé félagsins verði hækkað um kr. 4.000.000, að nafnverði á genginu 1,0. Hluthafar félagsins féllu frá forkaupsrétti sínum að hækkuninni, en Endi ehf. og Botn ehf. skrifuðu sig fyrir allri hlutafjárhækkuninni. Endi ehf. og Botn ehf. eru einkahlutafélög sem eru í eigu Fulltingis lögfræðiþjónustu, en Kristinn Hallgrímsson er meðal eigenda stofunnar.

„Það var samkomulag á milli mín og lánardrottnanna að ég haldi utan um þessi félög núna næstu vikurnar,“ segir Kristinn. Að sögn Kristins mun ekki liggja fyrir hvort nauðasamningur verði samþykktur fyrr en í byrjun júní. Ef það gengur eftir verður núverandi hlutafé, fjórar milljónir króna, einnig fært niður. Að svo búnu verður skuldum breytt í hlutafé og kröfuhafar félagsins taka formlega við sem eigendur. Verður það líklega í lok sumars, að sögn Kristins.

Afskiptum fyrri eigenda lýkur
„Menn vildu sýna það með táknrænum hætti að búið væri að afskrifa hlutafé fyrri eigenda að fullu. Síðan þarf að auka hlutafé að nýju og lögum samkvæmt þarf það að vera vera fjórar milljónir króna að lágmarki,“ segir Kristinn. Hann segir að verið að sé að tryggja að á meðan Teymi sigli í gegnum skulda- og uppgjörsferli sé það með lágmarkshlutafé.

Áætlun um endurskipulagningu gerir ráð fyrir að Nýi Landsbankinn eignist 57% í Teymi, eigendur skuldabréfaflokka eignist 33%, Straumur 8% og Íslandsbanki 2%. Þetta myndi þýða í reynd að ríkið ryddi sér til rúms á ný á fjarskiptamarkaði sem stærsti eigandi Vodafone og stór hluthafi í Tali.

Nýja stjórn Teymis skipa, auk Kristins, Gunnar Þór Ásgeirsson og Lúðvík Örn Steinarsson.

Kristinn Hallgrímsson.
Kristinn Hallgrímsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK