Spá 0,3% lækkun vísitölu neysluverðs

Greining Íslandsbanka telur að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,3% í apríl. Ef spá deildarinnar gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga lækka úr 15,2% í 11,7% og verður hún þá svipuð og fyrir ári síðan.

Í aprílmælingu VNV munu vegast á áhrif af nýlegri gengislækkun krónu ásamt síðustu dreggjum gengishrunsins í fyrrahaust annars vegar, og áhrif lækkunar húsnæðisverðs hins vegar, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

„Þannig gerum við ráð fyrir að verðlag á ferðum og flutningum hækki um ríflega 2% á milli mánaða, fyrst og fremst vegna hækkunar á eldsneytisverði. Matur og drykkur mun að mati okkar hækka um rúmt 1% á milli mánaða en matvara og eldsneyti eru þeir liðir VNV sem hvað hraðast breytast eftir gengisþróun krónu. Samanlagt vega þessir þættir til u.þ.b. 0,5% hækkunar VNV. Á móti spáum við því að reiknuð húsaleiga í VNV muni lækka um 3%, sem hefur áhrif til ríflega 0,5% lækkunar vísitölunnar. Áhrif annarra undirliða á vísitöluna eru minni í spá okkar, en samanlagt leiða þeir til þeirrar 0,3% hækkunar á VNV sem við spáum nú."

Niður fyrir 10% um mitt ár

Greining Íslandsbanka tekur að verðbólgan verði komin niður fyrir 10% um mitt ár og undir verðbólgumarkmið Seðlabankans í upphafi næsta árs. Að frátöldum áhrifum af gengislækkun krónu er nú nánast enginn verðbólguþrýstingur fyrir hendi í hagkerfinu. Íbúðaverð fer lækkandi og innlendur kostnaðarþrýstingur er lítill enda atvinnuleysi nú hið mesta sem mælst hefur hér á landi, kjarasamningsbundnar launahækkanir hafa verið hóflegar og launaskrið heyrir sögunni til, auk þess sem leiguverð á verslunar- og iðnaðarhúsnæði fer víða lækkandi. Þá er innfluttur verðbólguþrýstingur, að frátöldum krónuáhrifum, hverfandi.

Krónan stóri óvissuþátturinn

„Krónan er hins vegar stóri óvissuþátturinn í spá okkar. Spáin byggir á þeirri forsendu að krónan styrkist lítillega á næstunni en verði síðan á svipuðum slóðum fram á haustið. Hins vegar gerum við ráð fyrir snarpri en fremur skammvinnri veikingarhrinu krónu í kjölfar afléttingar gjaldeyrishafta og í spá okkar er slík hrina tímasett í lok ársins.

Ógerningur er hins vegar að tímasetja afnám haftanna með vissu og ber fremur að skoða þann afturkipp sem birtist í verðbólguspá okkar í upphafi næsta árs sem eina sviðsmynd af þeim áhrifum sem slík veikingarhrina gæti haft á verðbólguþróun. Þótt verðbólga muni væntanlega aukast tímabundið eftir afnám hafta teljum við líklegast að slíkur verðbólgukúfur verði bæði skammvinnur og tiltölulega vægur miðað við það sem á undan er gengið," að því er segir í Morgunkorni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK