Gylfi: Það sem ég óttaðist en ekki það sem ég vonaðist eftir

ylfi Arnbjörnsson
ylfi Arnbjörnsson Rax / Ragnar Axelsson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir stýrivaxtalækkun Seðlabanka Íslands nú vera þá sem hann óttaðist en ekki þá sem hann vonaðist til þess að sjá. Hann segir að vissulega sé þetta lækkun og það geti verið að seðlabankanum finnist hann vera taka stór skref en þau hefðu mátt vera stærri. 

„Miðað við þá stöðu sem  við erum komin í og eins og viðskiptaráðherra hefur sagt, þá er þessi hávaxtastefna að setja bankana á röndina rétt einu sinni. Því það eru ekki til vaxtatekjur til að mæta þeim mun sem er á milli inn- og útlána bankanna þannig að það er að efna í óefni þar. Eins er ljóst að heimilin í landinu ráða ekki við þetta þó svo stærsti hluti lána heimilanna sé ekki tengdur stýrivöxtum þá er einfaldlega vanskilin, það er dráttarvextir, og skammtímaskuldir heimilanna sem eru æði miklar þessa dagana tengdar stýrivöxtunum," segir Gylfi.

Gylfi segir að miðstjórn ASÍ sjái engar forsendur fyrir því að stýrivextir hér séu hærri en sem nemur 4 prósentustigum en stýrivextir Seðlabanka Evrópu. 

„Ég verð að viðurkenna það að mér finnst vera svo mikil mótsögn í þessari stefnu. Seðlabankinn er að reyna að sannfæra erlenda kröfuhafa okkar um að fara yfir í löng evrubréf á ríkið og þá líka löng evrubréf á fyrirtæki til þess að losna út úr þessum gjaldeyrishöftum. En á sama tíma er seðlabankinn að hvetja þessa sömu aðila til að vera áfram í krónu með einhverjum ofurvöxtum á krónu. Mér finnst þetta vera mótsögn. Þess vegna vildum við að það yrði reynt að draga úr vilja þeirra að vera í krónu og beita þá gjaldeyrishöftunum til að byrja með til að fá þá yfir í evru. Því það mun fyrr skila áhrifum til að minnka þrýstinginn á krónuna," segir Gylfi.

Algjörlega á móti því að láta krónuna falla

Gylfi segist ekki vera sammála þeirri skoðun Samtaka atvinnulífsins að það eigi að taka gjaldeyrishöftin af og láta krónuna falla. „Ég er algjörlega á móti því þar sem ég tel að hvorki heimilin né fyrirtækin standi undir því.

Mín tillaga er sú að menn taki vextina einfaldlega niður þannig að það verði ekki áhugavert að vera í krónu og bjóða þeim samhliða lausnir af hálfu ríkisins, ríkisins og fyrirtækja. Að þeir geti fengið evruskuldabréf til 7,10 eða 15 ára. Samhliða því sem ríkisstjórnin færi í aðildarviðræður við Evrópusambandið og upptöku evru í framhaldinu. Þá erum við komin með trúverðuga leið til þess að minnka pressuna á gjaldeyrismarkaðnum og þá hægt að fjarlægja höftin án þess að krónan fari í frjálst fall. Ég tel að með meiri vaxtalækkun felist leiðin út úr gjaldeyrishöftunum."

Hann segir að á meðan stýrivextir séu jafn háir og raun ber vitni þá vilji erlendir kröfuhafar halda sig við krónubréfin og fá mun hærri ávöxtun heldur en í gegnum evrubréf. „Þess vegna verða þeir að minnka þennan vaxtamun milli evru og krónu."

Gylfi segir að það sé vissulega áhætta fólgin í því að fara þá leið en hann segir að það sé meiri áhætta fólgin í því að láta ríkið borga vaxtamun bankanna sem telur jafnvel einhverja tugi milljarða. Það lendi líka á almenningi, segir Gylfi.

„Þannig að það er úr mörgum vondum kostum að velja og mér finnst seðlabankinn vera að velja mjög þröngt svið og byggja það á einhverri peningamálahagfræði sem að mér finnst ekki eiga við núna."

Breyting á viðhorfi stjórnenda seðlabankans

Að sögn Gylfa kom það fram hjá seðlabankastjóra, en fulltrúar ASÍ og Samtaka atvinnulífsins áttu fund með forsvarsmönnum seðlabankans í morgun, að það sé vilji seðlabankans að lækka stýrivexti enn frekar eftir mánuð. Síðan verði hægt á skrefunum en þau tekin áfram næstu tvo til fjóra mánuði. 

„Það er von fólgin von í því og það er einnig jákvætt að seðlabankastjóri boði okkur og fulltrúa atvinnulífsins til vinnu með því að setja upp vinnuhóp til þess að fara yfir röksemdafærsluna. Við deilum ekki um markmiðin en það er mikill ágreiningur um leiðirnar."

ASÍ hefur allt frá árinu 2003 kallað eftir því við seðlabankann að hann kæmi að samráði við ASÍ áður en teknar eru ákvarðanir um stýrivexti í stað þess að bankinn setti sig í dómarasætið í formi vaxtaákvarðana.

„Það mátti aldrei heyra á það minnst af hálfu stjórn seðlabankans og mér finnst þessi breyting nú mjög jákvæð tíðindi. Annars vegar sú opnun sem hefur átt sér stað með því að opna fundargerðir peningstefnunefndar ofl. Mér finnst þetta upplegg seðlabankastjóra, að bjóða okkur til samræðu um þetta án þess að það hafi árhif á sjálfstæði seðlabankans né ASÍ, en leiðir til þess að við getum nálgast betur með því að ræða skoðanir okkar og þeirra," segir Gylfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK