Fréttaskýring: Ekki alveg tilhæfulaust

Fjárhagur Icelandair er nú í endurskipulagningu.
Fjárhagur Icelandair er nú í endurskipulagningu.

„Orðrómur um að ríkið kunni að þurfa að taka yfir rekstur Icelandair tilhæfulaus.“ Þannig hljómaði fyrirsögnin á fréttatilkynningu sem send var frá fjármálaráðuneytinu 23. apríl sl. eftir að fréttir voru sagðar af því, að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefði talað um, á fundi á Egilsstöðum, að ríkið kynni að koma rekstri Icelandair vegna erfiðrar stöðu félagsins.

Nokkurt fjaðrafok var útaf þessum fréttum, ekki síst í ljósi þess að Icelandair er skráð á markað. Fréttir þess efnis, að flugfélagið kynni að verða þjóðnýtt voru því viðkvæmar eins og ætla mætti. Það er ekki á hverjum degi sem flugfélög eru þjóðnýtt. En staðan sem skapast hefur á Íslandi eftir fall bankanna kennir mönnum, að láta ólíklegustu hluti ekki koma sér á óvart.

Viðbrögð markaðarins voru ekki á þann veg, að fréttirnar um hugsanlega þjóðnýtingu kæmu á óvart. Viðskipti með bréf í Icelandair héldu áfram að vera lítil sem engin, og þessi orðrómur hafði ekki teljanleg áhrif á gengi bréfa í félaginu. Tilkynning til kauphallarinnar í morgun, um að Íslandsbanki réði nú yfir 47 prósent hlutafjár í Icelandair, kom því ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ríkisbankarnir, sem stofnaðir voru utan um innlenda starfsemi Glitnis, Kaupþins og Landsbankans, stýra nú félaginu óbeint og hafa gert um nokkurt skeið.

Staða eigenda slæm lengi - Langflug tekið brátt yfir

Eins og greint var frá í fréttaskýringu á mbl.is 4. mars á þessu ári hafa lánveitendur félaga sem fara með meira en 70 prósent í félaginu stýrt því óbeint um langt skeið, eða alveg frá því að krónan féll í kjölfar bankahrunsins í október.  Þetta hlutfall hefur smám saman hækkað en nú er svo komið að lánveitendur og kröfuhafar ráða yfir 80 til 90 prósentum af öllu hlutafé í félaginu, samkvæmt heimildum mbl.is.

Stærsti einstaki hluthafinn, sem enn hefur ekki verið tekinn yfir af sínum stærsta lánveitanda, Landsbankanum, er Langflug. Það félag er í 2/3 hluta í eigu FS7, hluts Finns Ingólfssonar, fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóra, og 1/3 hluta í eigu fjárfestingafélagsins Giftar. Það félag er með öllu óstarfhæft enda með skuldir sem nema a.m.k. um 30 milljörðum umfram eignir. Samkvæmt heimildum mbl.is er stutt í að Landsbankinn taki yfir hlut Langflugs.

Gift og Finnur hafa lengi átt í árangursríku samstarfi, sem m.a. hefur skilað Finni umtalsverðum ávinningi. Ljóst er að það samstarf mun ekki ganga lengur. Gift, sem var áður meðal stærstu hluthafa í Kaupþingi, fékk á sig mikið högg við fall bankanna sem félagið hafði ekki með nokkru móti bolmagn til þess að taka á sig. Auk þess tapaði félagið öðrum eignum sínum í skráðum félögum, þar á meðal í Exista, Straumi, Landsbankanum og Glitni. Þá fóru gjaldmiðlaskiptasamningar félagsins einnig í uppnám við fall bankanna.

Gift var stofnað utan um eignir Samvinnutrygginga á sumarmánuðum 2007. Þá var ákveðið að slíta félaginu og skipta eignunum á milli eigenda Samvinnutrygginga, fyrrverandi tryggingartaka hjá Samvinnutryggingum. Samvinnusjóðurinn átti rétt á stærstum einstökum hluta í þessari uppskiptingu. Ekkert varð af þessum slitum og fengu eigendurnir því aldrei neitt í sinn hlut. Gift réðst hins vegar í sín umfangsmestu hlutabréfaviðskipti eftir að þessi ákvörðun var tekin, þegar félagið keypti stóran hlut í Kaupþingi í desember 2007 sem áður hafði verið í eigu fjárfestingafélagsins Gnúps. Viðskiptin voru upp á um 20 milljarða.

Eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu lánaði Kaupþing fyrir þessum viðskiptum gegn veðum í bréfunum sjálfum, auk þess sem samþykki bankans þurfti fyrir öllum viðskiptum umfram 15 prósent af heildareignasafni félagsins.

Reyna að halda sjó

Þrátt fyrir erfiðleika eigenda Icelandair hefur stjórnendateymi félagsins, undir leiðsögn forstjórans Björgólfs Jóhannssonar, reynt að halda starfsemi félagsins í hefðbundnum farvegi. Samkvæmt heimildum mbl.is hefur það gengið í samræmi við áætlanir, þrátt fyrir erfitt rekstrarumhverfi. Er nú meðal annars unnið að því á vegum félagsins að efla markaðsstarf á erlendum vettvangi þar sem skapast hafa nokkur sóknarfæri vegna veikingar krónunnar. Fleiri krónur fást nú fyrir erlendar myntir en áður. Ljóst er þó að félagið getur ekki staðið í fjárfestingum á meðan eigendur félagsins eru að stærstum hluta nýju ríkisbankarnir, sem enn bíða þess að fá endanlegan efnahagsreikning og innspýtingu eigin fjár frá ríkinu. Líklegt er að það gerist í næsta mánuði, þegar aðskilnaði gömlu og nýju bankanna á formlega að ljúka.

Bréfin sem Íslandsbanki hefur nú leyst til sín voru til tryggingar lánum sem veitt voru árið 2006. Þá seldi FL Group, undir stjórn Hannesar Smárasonar, kjölfestuhlut sinn í félaginu á genginu 27.

Þessi bréf eru nú kölluð til baka á genginu 4,5 sem var lokagengi á markaði sl. föstudag. Ljóst er þó að virði bréfanna nú er með nokkru óljóst þar sem lítil sem engin viðskipti eru með bréf í félaginu. Ekki hefði því komið á óvart þó bréfin hefðu verið tekin yfir á lægra gengi, þó síðasta markaðsgengi sé nærtækasta viðmiðunin.

Áfram er unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins í samvinnu við stjórnendur félagsins. Ekki síst er horft á hvernig best verður að leysa úr erfiðri skuldastöðu félagsins. Vaxtaberandi skuldir eru nú tæplega 45 milljarðar, þar af um helmingur skammtímaskuldir skv. uppgjöri félagsins fyrir fyrsta fjórðung þessa árs. Menn þurfa því að vanda vel til verka til þess að tryggja að Icelandair verði ekki fyrir frekari skakkaföllum.

Fréttaskýring mbl.is 4. mars um málefni Icelandair

Finnur Ingólfsson, og félag hans FS7, á Langflug ásamt Gift. …
Finnur Ingólfsson, og félag hans FS7, á Langflug ásamt Gift. Líklegt er að Landsbankinn taki yfir það félag innan skamms. Kjartan Þorbjörnsson
Karl Wernersson ræður engu lengur í Icelandair. Félag hans og …
Karl Wernersson ræður engu lengur í Icelandair. Félag hans og Einars Sveinssonar og fjölskyldu, Máttur, hefur misst hlut sinn til Íslandsbanka.
Björgólfur Jóhannsson.
Björgólfur Jóhannsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK