Allir sammála um óbreyta vexti

Þórarinn G. Pétursson, Arnór Sighvatsson og Svein Harald Øygard sátu …
Þórarinn G. Pétursson, Arnór Sighvatsson og Svein Harald Øygard sátu allir í peningastefnunefnd 12. ágúst. mbl.is/Kristinn

Allir þeir, sem sátu í peningastefnunefnd Seðlabankans 12. ágúst voru sammála um að ekki ætti að breyta stýrivöxtum bankans, sem eru nú 12%. Nefndin ræddi raunar þann möguleika að hækka vextina um 1 prósentu. Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar, sem birt var nú síðdegis.

Í fundargerðinni kemur m.a. fram það mat nefndarinnar,  að frestun á afgreiðslu Alþingis á Icesave-samningum svonefndu við Bretland og Holland hafi stefnt lánasamningum við Norðurlöndin og gjaldmiðlaskiptasamningum við norrænu seðlabankana í tvísýnu. Þetta gæti grafið undan trausti og tafið allt bataferlið, þar á meðal áætlunina um að afnema gjaldeyrishöftin.

Í fundargerðinni kemur fram að nefndarmenn voru sammála um að veigamikil rök hnigu gegn því að lækka stýrivexti frekar  meðan gengi krónunnar væri enn jafn veikt og nú væri raunin. Þá ræddi nefndin þann möguleika að hækka innlánsvexti um allt að 1 prósentu. Þótt þess sæjust engin skýr merki, að mati nefndarinnar, að fyrri lækkanir stýrivaxta hefðu haft veruleg áhrif á það að farið hefði verið í kringum gjaldeyrishöftin, fé safnaðist fyrir á gjaldeyrisreikningum eða á veikingu krónunnar almennt, væri ekki hægt að útiloka slík áhrif. Ennfremur var nefndin þeirrar skoðunar að frekari lækkun vaxta kynni að stangast á við það markmið að hefja afnám gjaldeyrishafta fyrir 1. nóvember 2009, sérstaklega í ljósi þess hve millibankavextir eru lágir.

Nefndarmenn voru sammála um að forðast bæri að gera nokkuð sem gæti skapað efasemdir um ásetning hennar að stuðla að stöðugleika krónunnar og lítilli verðbólgu, sérstaklega í aðdraganda þess að gjaldeyrishöft verða afnumin. Því var haldið fram að þannig gæti peningastefnan best aukið tiltrú á efnahagslífið, sem er forsenda þess að gjaldeyrishöft verði afnumin. Til vaxtahækkana gæti komið af þessum sökum ef aðstæður kalla á slíkt. Með hliðsjón af umræðunni lagði  seðlabankastjóri til að stýrivextir og innlánsvextir yrðu óbreyttir og var sú tillaga samþykkt samhljóða.

Fundargerð peningastefnunefndar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK