Rifta gjafagerningum fyrri eigenda FL Group

Stjórn Stoða hefur falið lögmönnum að láta reyna á riftun fimm samninga sem fólu í sér gjafagerninga eða ótilhlýðilega ráðstöfun fjármuna síðustu 24 mánuði áður en FL Group óskaði fyrst eftir heimild til greiðslustöðvunar hinn 29. september 2008 samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Um er að ræða viðskipti sem hlaupa á milljörðum króna. Í einhverjum tilvikum var um að ræða ráðstöfun fjármuna til aðila sem tengdir eru fyrrum eigendum FL Group/Stoða, en lögum samkvæmt eru gjafagerningar til tengdra aðila riftanlegir allt að 24 mánuðum áður en óskað var eftir greiðslustöðvun. Að beiðni Þorsteins Einarssonar hrl., sem var aðstoðarmaður í nauðasamningum Stoða, voru endurskoðendur Ernst & Young fengnir til að fara yfir m.a. viðskipti tengdra aðila hjá FL Group/Stoðum.

Meðal þeirra viðskipta sem komu sérstaklega til athugunar, samkvæmt heimildum blaðsins, er sala FL Group á Sterling og stofnun NTH í desember 2006 og kaup FL Group á TM í desember 2007, en kaupverðið var greitt með hlutum í FL Group. Einnig hafa verið athugaðar tvær millifærslur upp á samtals 984 milljónir króna frá FL Group til Glitnis í byrjun september 2008, sem engar skýringar virðast vera á.

Ekki áhrif á hæfi Jóns

Velta má fyrir sér hæfi Jóns Sigurðssonar til að stýra félaginu á meðan stjórn þess er að reyna að rifta samningum sem hann tók þátt í að gera. Samkvæmt upplýsingum blaðsins hefur þetta sjónarmið takmarkað vægi. Riftunarreglur sem um ræðir séu hlutlægar og huglæg afstaða forstjórans á þeim tíma sem samningarnir voru gerðir skipti því minna máli. Starfsmenn Stoða kunni að hafa hagað sér eðlilega og innan ramma gildandi reglna en síðan hafi komið í ljós eftir á að um gjafagerninga hafi verið að ræða.

Stoðir eru nú í eigu um 200 kröfuhafa félagsins. Skilanefnd Glitnis er stærsti hluthafinn með um þriðjung hlutafjár og NBI með fjórðungshlut.

Í hnotskurn
» Nauðasamningur Stoða var samþykktur samhljóða af kröfuhöfum hinn 26. maí síðastliðinn.
» Aðeins fjórir starfsmenn vinna í dag hjá Stoðum. Jón Sigurðsson er forstjóri fyrirtækisins og eru þrír starfsmenn honum innan handar við að hámarka verðmæti eignasafns félagsins kröfuhöfum þess til hagsbóta.
» Samkvæmt upplýsingum frá Stoðum hefur félagið ekki selt eignir eða ráðstafað þeim með öðrum hætti, að undanskildum eignum sem veðhafar hafa gengið að í kjölfar gjaldfellingar á lánasamningum, síðan félagið leitaði fyrst eftir greiðslustöðvun.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK