Gagnrýndi bankana

Af fundi Viðskiptaráðs um áhrif banka á rekstrarumhverfi fyrirtækja.
Af fundi Viðskiptaráðs um áhrif banka á rekstrarumhverfi fyrirtækja. Heiðar Kristjánsson

Eftir hrun hafa margir einstakir markaðir á Íslandi skroppið saman með þeim afleiðingum að pláss er fyrir færri fyrirtæki á þessum mörkuðum. Því ættu, undir eðlilegum kringumstæðum, þau fyrirtæki að hverfa á braut sem verst hafa verið rekin eða standa höllum fæti af öðrum orsökum. Kom þetta fram í máli Þórðar Sverrissonar, forstjóra Nýherja, á fundi Viðskiptaráðs í dag.

Hann segir hins vegar að of oft séu slík fyrirtæki tekin yfir af bönkunum. Segir hann að fyrirtæki sem komin séu í greiðsluþrot eigi annað hvort að setja í gjaldþrot eða selja strax. Ekki sé heppilegt að bankar taki yfir meirihluta hlutafjár og haldi rekstri fyrirtækjanna áfram í samkeppni við þau fyrirtæki sem enn séu rekstrarhæf.

Sagði hann að í sumum tilfellum, eins og í dæmi Teymis, væri um að ræða fyrirtæki sem fyrir löngu hefðu átt að vera gjaldþrota en hefði verið haldið á lífi þar sem eigendur þeirra hefðu einnig verið stórir eigendur í bönkunum. Skjóti því skökku við að þessi sömu fyrirtæki séu nú aftur með bankana sem bakhjarla í samkeppni við önnur fyrirtæki.

Sagði hann að það sjónarmið að hámarka eigi verðmæti í þágu bankanna. Ættu bankarnir ekki að taka afleiðingum ákvarðana sinna eins og aðrir? Þá spurði hann hvort raunhæft væri að bankinn gæti rekið fyrirtæki betur en fyrri eigendur þeirra.

Hafa ekki undirboðið

Ásmundur Stefánsson, bankastjóri Landsbankans, sagði hins vegar að við meðferð á þeim fyrirtækjum sem féllu í fang bankanna þyrfti að horfa til fleiri þátta. Til dæmis hvaða áhrif það hefði á atvinnustig í landinu ef fyrirtæki eru gerð gjaldþrota. Einnig sagði hann að slík gjaldþrot gætu orðið keppinautum fyrirtækjanna til happs en komið niður á samkeppni í landinu. 

Sagðist hann ekki vita til þess að fyrirtæki í umsjón bankanna hefðu verið að undirbjóða önnur fyrirtæki á markaði og lagði á það áherslu að væru fyrirtæki seld samstundis yrði væntanlega um brunaútsölu að ræða og að við það myndu tapast verðmæti.

Þorsteinn Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, vék stuttlega að þessu í sínu erindi og sagði að ekki mætti rugla saman bankakerfinu og félagslega kerfinu, þótt ríkið eigi bankana tímabundið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK