Hugsa og framkvæmi sjálf

Ingibjörg Pálmadóttir.
Ingibjörg Pálmadóttir.

Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, segir í yfirlýsingu sem hún sendi dómstóli á Manhattan vegna skaðabótamáls sem slitastjórn Glitnis hefur höfðað, að henni virðist hafa verið verið stefnt í málinu á þeirri forsendu að hún sé „annað sjálf" eiginmanns hennar.

„Það er fáránlegt að (Steinunn) Guðbjartsdóttir (formaður slitastjórnar Glitnis) gefi í skyn og ætlist til þess að dómstóll trúi því að eiginkonum sé stjórnað af eiginmönnum sínum og að þær séu því annað sjálf, (alter ego), þeirra. Ég hugsa og framkvæmi sjálf. Í því felst að ég tek viðskiptaákvarðanir mínar sjálf," segir Ingibjörg. 

Fram kemur í yfirlýsingunni, að Ingibjörg eigi hlutabréf í tveimur íbúðum í Granmercy Park í New York. Hlutabréfin í annarri íbúðinni hafi verið keypt 5. desember 2006 og bréfin í hinni í apríl og maí 2007.

Þessi kaup hafi að hluta til verið fjármögnuð með lánum frá Landsbankanum en  að öðru leyti segist Ingibjörg hafa fjármagnað kaupin með eigin fé.  Hún greiði fyrir viðhald og annan kostnað vegna íbúðanna.

Þá segir Ingibjörg að hún og maður hennar séu skráðir íbúar en hún eigi 99% í þeim en Jón Ásgeir 1%.  Það endurspegli, að íbúðirnar voru keyptar fyrir hennar fé en Jón Ásgeir hafi fengið 1% til að tryggja rétt hans ef hún falli frá á undan honum.

Segir Ingibjörg, að þegar hún keypti íbúðirnar hafi þau hjónin lagt fram fjárhagslegar upplýsingar til stjórnar sameignarfélagsins og talið að þær upplýsingar færu ekki lengra því þær væru afar persónulegar.

Ingibjörg fullyrðir einnig, að hún hafi ekki notað fé, komið frá Glitni, til að endurgreiða lán frá Royal Bank of Canada, sem var með veði í íbúðunum. 

Yfirlýsing Ingibjargar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK