Telja bankann hafa farið að reglum

Landsbankinn hefur sent frá  sér tilkynningu varðandi afskriftir skulda Nónu ehf., sem var í eigu Skinneyjar-Þinganess, janúar sl. Segir í tilkynningu að öllum fyrirtækjum með greiðslugetu standi sama leið og farin var varðandi niðurfellingu skulda Nónu ef fyrirtækin hafa til þess greiðslugetu. Einn eigenda Skinneyjar var Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins.

„Af gefnu tilefni er rétt að taka fram að Landsbankinn fór í einu og öllu að verklagsreglum þegar skuldir Nónu ehf. voru afskrifaðar í janúar 2010. Skuldir fyrirtækisins voru færðar niður í 100% af eignavirði til samræmis við þágildandi reglur bankans og eigendur lögðu félaginu til nýtt fé samhliða þeirri niðurfærslu. Í dag heimila reglur bankans niðurfærslu skulda í 90% af eignavirði samhliða 10% framlagi eigenda. Öllum fyrirtækjum með greiðslugetu stendur sú leið til boða.  Upplýsingar um leiðir Landsbankans við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja má finna á heimasíðu bankans.

 Fram kemur í ítarlegri skýrslu Eftirlitsnefndar til efnahags- og viðskiptaráðherra, sem skipuð var með lögum, að viðskiptavinir Landsbankans njóta jafnræðis. Það þýðir að fyrirtækjum er hvorki ívilnað né  refsað þó einhver eigandi þeirra kunni t.d. að hafa starfað í stjórnmálum um lengri eða skemmri tíma.  Þess ber að geta að margnefndur eignarhlutur fyrrverandi forsætisráðherra í móðurfélagi Nónu ehf., Skinney – Þinganess hf., er 2,37%. Engar skuldir þess félags hafa verið afskrifaðar og slíkt stendur ekki til.

 Einnig er rétt að nefna að afskriftir á skuldum Nónu ehf. hafa engin áhrif á niðurskrift skulda annarra viðskiptavina og sérstaklega ekki einstaklinga. Með þessari leið og endurskipulagningu á skuldastöðu Nónu ehf. telur bankinn sig hámarka endurheimtur sínar af lánum til fyrirtækisins.

 Landsbankinn hefur lagt áherslu á að endurskipuleggja skuldir lífvænlegra fyrirtækja í samræmi við vilja yfirvalda og hefur í því sambandi talið mikilvægt að vernda störf og lífsafkomu fólks. Með það fyrir augum var samningur um niðurskrift skulda Nónu ehf. gerður.

 Rétt er að benda á í tengslum við mál Nónu ehf. og önnur af svipuðum toga, að í skýrslu Eftirlitsnefndarinnar er á blaðsíðu 93 ábending til fjölmiðla um að þeir kynni sér mál sem þeir fjalla um af kostgæfni með upplýsingu að leiðarljósi.  Þar segir; ,,Nefndin mælist til þess að viðmælendur fjölmiðla verði beðnir um rökstuðning og gögn staðhæfingum sínum til stuðnings.“ Ennfremur: ,,Mikil ábyrgð hvílir á fréttamiðlum sem flytja fréttir þar sem miklir fjárhagslegir hagsmunir einstaklinga, fyrirtækja og almennings eru í húfi.“

 Landsbankinn telur að þessi ábending sé ekki sett fram að ósekju," segir í tilkynningu frá Landsbankanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK