Spá stýrivaxtalækkun

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar Óskarsson

Greining Íslandsbanka spáir því að Seðlabanki Íslands muni lækka stýrivexti um 0,5 prósentur á miðvikudag. Á síðasta vaxtaákvörðunardegi ákvað peningastefnunefnd að lækka stýrivexti bankans um 0,75 prósentur, þ.e. úr 7,0% í 6,25%.

Þessi lækkun var nokkuð undir væntingum greiningardeilda og markaðarins, samkvæmt Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Mikil hreyfing í kjölfar vaxtaákvörðunar

„Fundargerð peningastefnunefndar leiddi í ljós að þrátt fyrir að vilji væri á meðal nefndarmanna til að taka bæði stærra og minna skref í lækkunarferlinu þá voru þeir allir sammála um að við núverandi aðstæður bæri svo lítið á milli að þeir samþykktu tillögu seðlabankastjóra um 0,75 prósentu lækkun," segir í Morgunkorni.

Mikil hreyfing varð á innlendum skuldabréfamarkaði í kjölfar síðustu vaxtaákvörðunar Seðlabankans. Mikill söluþrýstingur skapaðist á þá bæði ríkis- og íbúðabréf.

„Þó var það ekki vaxtaákvörðunin sem slík sem myndaði þessa spennu ein og sér heldur áhersla bankans á yfirvofandi afnám gjaldeyrishafta. Nokkuð ljóst er að hið síðarnefnda var mun stærri ástæða fyrir þessum mikla söluþrýstingi enda breyttust forsendur fjárfesta um vaxtaþróun á svipstundu. Verður því ekki síður fróðlegt að fylgjast með hvort bankinn komi með frekari útlistun á þessari áherslubreytingu bankans heldur en hversu stórt skref peningastefnunefnd tekur að þessu sinni.

Eftir síðustu vaxtaákvörðun lýsti nefndin því yfir að eitthvert svigrúm væri enn til staðar til áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds héldist gengi krónunnar stöðugt eða styrktist, og verðbólga hjaðnaði eins og spáð er. Þessar forsendur standast þar sem viðskiptavegið meðalgengi krónunnar er nú viðlíka því sem það var við síðustu vaxtaákvörðun og verðbólgan hefur haldið áfram að hjaðna í takti við það sem reiknað var með," segir í Morgunkorni.

Í síðustu spá Seðlabankans sem birt var í ágúst síðastliðnum kom fram að vísbendingar væru um að botn efnahagssamdráttarins væri að baki og að efnahagsbati væri hafinn eða þá við það að hefjast. Gerði bankinn þá ráð fyrir 1,9% samdrætti á árinu í stað 2,6% sem hann hafði reiknað með í maí og lá meginástæða þessa mismunar í kröftugri atvinnuvegafjárfestingu.

Á hinn bóginn spáði Seðlabankinn minni hagvexti á næstu árum en hann hafði reiknað með í maí. Þannig spáði bankinn um 2,4% hagvexti á næsta ári í stað 3,4% vaxtar og svo 1,7% árið 2012 í stað 1,9%.

Væntanlega spáð meiri samdrætti - spurning um trúverðugleika Seðlabankans

„Telja má nokkuð víst að Seðlabankinn muni spá meiri samdrætti á árinu en hann gerði ráð fyrir í síðustu spá sinni. Til þess að færa rök fyrir þessu má m.a. benda á þær landsframleiðslutölur yfir fyrsta helming ársins sem Hagstofan birti í septemberbyrjun en þar er talið að landsframleiðsla hafi dregist saman um 7,3% að raungildi á fyrsta helming ársins samanborið við sama tíma í fyrra. Vísbendingar um seinni helming ársins benda jafnframt til þess að hagkerfið sé enn undir álögum kreppunnar og fylgifiskum hennar.

Þó má geta þess að Már Guðmundsson Seðlabankastjóri tjáði sig nýverið um að löngu fyrir bankahrun þá varð bankanum ljóst að samdráttur yrði í íslensku hagkerfi á árunum 2009 og 2010. Sagði hann ennfremur að starfsfólk bankans hefði ekki þorað að birta þær svartsýnu spár sem líkönin skiluðu vegna utanaðkomandi gagnrýni. Velta má því fyrir sér hvort að þessi háttur sé enn við lýði innan bankans og þar með hvort hægt sé að taka spár bankans trúverðugar," segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK