ESA rannsakar gagnaver Verne

Athafnasvæði gagnavers Verne Holdings á Ásbrú í Reykjanesbæ.
Athafnasvæði gagnavers Verne Holdings á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að hefja formlega rannsókn á stuðningi íslenska ríkisins og Reykjanesbæjar við fyrirtækið Verne Holdings ehf. í tengslum við byggingu gagnavers á Reykjanesi.

Fram kemur á vef ESA, að eftir forathugun málsins hafi stofnunin efasemdir um að ríkisaðstoð sú, sem felist í fyrirhuguðum undanþágum frá sköttum og gjöldum til ríkis og sveitarfélags, samrýmist EES samningnum.

ESA segir, að Verne hafi í febrúar 2008 keypt tvær vöruskemmur á fyrrum varnarsvæði bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli af íslenska ríkinu. Hóf fyrirtækið framkvæmdir við gagnaver sem það hyggst reisa þar í þremur áföngum og fyrirhugar að ljúka því verki 2016.

Íslensk yfirvöld tilkynntu ESA hinn 1. september 2010 um að ríkið og Reykjanesbær hygðust veita Verne aðstoð til að byggja upp gagnaverið og vísuðu til undanþágureglna EES samningsins um byggðaaðstoð. Alþingi samþykkti í júní 2010 lög, sem heimila íslenskum yfirvöldum að ganga til fjárfestingasamnings við Verne sem myndi veita félaginu undanþágu frá ýmsum sköttum og gjöldum.

ESA segir, að þar sem Verne hóf byggingu gagnaversins án þess að íslensk yfirvöld hefðu skuldbundið sig til að veita byggðaaðstoðina, sé þörf á frekari upplýsingum til meta hvort aðstoðin sé nauðsynleg til að unnt sé að ljúka verkinu. Að auki muni ESA meta hvort ríkisaðstoð kunni að felast í nokkrum samningum sem Verne hefur þegar undirritað við ríkið og fyrirtæki þess; orkusölusamningi, kaupsamningi um fasteignir, lóðarleigusamningi og samningi um gagnaflutning.

„Innlend yfirvöld þurfa að sýna fram á nauðsyn þess að veita ríkisaðstoð og að hún raski ekki samkeppni um of. Þá verða yfirvöld að sýna fram á ríkisaðstoðin sé hæfileg til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt og að hún sé til þess fallin að ráða bót á byggðavanda," segir á heimasíðu ESA.

Stofnunin segir, að ákvörðun um að hefja formlega rannsókn sé tekin með fyrirvara um endanlega ákvörðun þar sem ESA gæti komist að þeirri niðurstöðu að ríkisaðstoðin sé í samræmi við EES-samninginn.

ESA hefur beðið um athugasemdir og upplýsingar frá íslenskum yfirvöldum. Jafnframt óskar eftir athugasemdum frá þeim aðilum sem telja sig eiga hagsmuna að gæta.

Vefur ESA

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK