Hagnaður Icelandair 3,2 milljarðar

Icelandair Group
Icelandair Group Ljósmynd/Sigurður Bogi Sævarsson

Hagnaður Icelandair Group á þriðja ársfjórðungi nam 5,2 milljörðum króna samanborið við 4 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Hagnaður félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins nam 3,2 milljörðum króna en á sama tíma í fyrra nam heildartap samstæðunnar 1 milljarði króna.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir í tilkynningu að uppgjör fyrstu níu mánaða ársins er betra en stjórnendur Icelandair gerðu ráð fyrir.

„Bætt afkoma skýrist einkum af auknu framboði og aukinni sölu á Norður-Atlantshafsmarkaði en jafnframt af góðri sætanýtingu og tekjustýringu í leiðakerfi Icelandair."

Afkomuspá ársins hækkuð enn frekar

Hefur Icelandair hækkað EBITDA spá ársins úr 9,5 milljörðum í 10,5 milljarða. Í lok september nam handbært fé félagsins 7,4 milljörðum króna.

„Þrátt fyrir góða afkomu á fyrstu níu mánuðum ársins liggur fyrir að framundan eru tveir krefjandi ársfjórðungar. Áframhaldandi óvissa í íslensku efnahagslífi er fyrirtækinu kostnaðarsöm og á næsta ári eru líkur á að samkeppni í millilandaflugi til og frá Íslandi harðni umtalsvert .

Jafnframt má búast við auknu framboði yfir Atlantshafið en við teljum fyrirtækið vel í stakk búið til að mæta þeirri samkeppni með aukinni þjónustu, hagkvæmri verðlagningu og stöðugu sætaframboði til og frá landinu," segir ennfremur í tilkynningu.

Eins og tilkynnt var þann 21. október síðastliðinn er fjárhagslegri endurskipulagningu Icelandair Group lokið. Vaxtaberandi skuldir lækka um tæpa 14 milljarða króna og eru um 25 milljarðar króna eftir endurskipulagninguna.

Samhliða hefur hlutafé félagsins hækkað eftir greiðslu reiðufjár frá fjárfestum sem skráðu sig fyrir 5,5 milljörðum króna að markaðsverði í nýju hlutafé. Einnig hafa stærstu lánveitendur Icelandair Group breytt skuldum að fjárhæð 3,6 milljörðum króna í hlutafé miðað við gengið 5, þannig að þeir munu skrá sig fyrir 720 milljón nýjum hlutum. Heildarhlutafjárhækkun mun þannig nema um 2,9 milljörðum nýrra hluta að nafnvirði.

Eiginfjárhlutfall var 18,6 % í lok september 2010, en var 16,4% í lok ársins 2009. Eignir voru 91,2 milljarðar króna í lok september 2010 samanborið við 89,1 milljarð króna í árslok 2009.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK