Vill samþykkja Icesave og losna við höft

Vilmundur Jósefsson.
Vilmundur Jósefsson. mbl.is/Ómar

Íslenskt atvinnulíf getur ekki búið við gjaldeyrishöft til lengri tíma, að sögn Vilmundar Jósefssonar, formanns SA, en hann hélt erindi á aðalfundi Samtakanna í dag. Sagði hann gjaldeyrishöftin vera óviðunandi og fela í sér að fyrirtæki hér á landi geta ekki átt samstarf við erlend fyrirtæki á jafnréttisgrundvelli.

„Atvinnulífið getur ekki fjárfest erlendis og höftin stöðva framþróun og nýsköpun í fyrirtækjunum. Það er sama í hvaða atvinnugrein fyrirtækin starfa – hvort það er verslunarfyrirtæki, ferðaþjónusta, útflutningsfyrirtæki eða fyrirtæki sem lifir á sköpunarkrafti starfsmanna sinna – þau verða öll fyrir áhrifum af höftunum og þau dragast aftur úr keppinautum sínum,“ sagði Vilmundur.

Hann sagði að nútíma atvinnulíf verði að búa við frjálst fjármagnsflæði og óheftan aðgang að erlendum fjármagnsmörkuðum og geta sótt sér bæði lánsfé og eigið fé. „Gjaldeyrishöftin eru til þess fallin að seinka efnahagsbata, þau eru yfirlýsing stjórnvalda um að hagkerfið hér á landi sé annars flokks. Höftin eru yfirlýsing um að stjórnvöld trúi ekki á gjaldmiðilinn sem þau sjálf gefa út – því skyldu þá aðrir gera það.“

Samþykkt Icesave er liður í endurreisninni

Vilmundur endurtók það sem SA hafa áður sagt opinberlega, að samtökin álíta mikilvægt að Icesave-samkomulagið frá því í desember síðastliðnum verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn og telja hagsmunum atvinnulífsins og alls samfélagsins best borgið með því að ljúka málinu.

„Menn geta hér á landi verið ósammála alþjóðlegu matsfyrirtækjunum um neikvæð áhrif þess að Icesave-samningurinn verði felldur, á sama hátt og menn voru ósammála umfjöllun Danske Bank um íslenska bankakerfið fyrir nokkrum árum. Það breytir því ekki að á þessi fyrirtæki er hlustað á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og áhrif mats þeirra eru mikil. Samþykkt Icesave-laganna styrkir forsendur kjarasamninganna um hagvöxt, framkvæmdir og fjárfestingar. Það er einn þáttur í endurreisn hagkerfisins og liður í því að opna atvinnulífinu aðgang að innlendu og erlendu lánsfé á viðráðanlegum kjörum og unnt verður að afnema gjaldeyrishöftin hraðar en ella.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK