Berlusconi komi skikki á fjármál Ítala

Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu
Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu THIERRY ROGE

Þjóðarleiðtogar Evrópusambandsins sem funda um evrumál í dag, hafa sett mikinn þrýsting á forsætisráðherra Ítalíu, Sylvio Berlusconi um að leysa úr skuldavanda Ítalíu og leysa úr ágreiningi við Frakka um stjórnarsæti í Seðlabanka Evrópu.

Áður en Berlusconi mætti til fundar með Evrópuleiðtogunum fundaði hann með Herman Van Rompuy forseta ESB og síðan með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands. Berlusconi kom brattur af fundi með tvíeykinu og sagði glettinn að hann hefði aldrei á ævinni fallið á prófi.

Eru leiðtogarnir sagðir óttast að Ítalía sé á sömu leið og Grikkland, Írland og Portúgal og því sé hugmyndin sú að pressa á hann. Vandi Berlusconi liggur meðal annars í því að hann er talinn skorta trúverðugleika í augum hinna ESB-leiðtoganna sem hafa óskað eftir að hann bíti í það súra epli að fara að dæmi Spánar með hörðum niðurskurði.

Framkvæmdastjórn Evrópu þrýsti í síðustu viku á Ítali um að auka niðurskurð hjá hinu opinbera og fara í endurskipulagningu en evrópskir embættismenn telja að Ítalir hafi ekki staðið við það sem lofað var í ágúst þegar Seðlabanki Evrópu keypti ítölsk ríkisskuldabréf.

Deilt um stjórnarsæti

Deila Ítala og Frakka um stjórnarsæti í Evrópska seðlabankanum snýst um að Ítalir hafa tvö stjórnarsæti í nóvember þegar Frakkinn Jean-Claude Trichet hættir sem seðlabankastjóri og Ítalinn Mario Draghi tekur við. Sex sitja í stjórn bankans og Frakkar eiga þá engan stjórnarmann. Ítalinn Lorenzo Bini Smaghi sem einnig situr í stjórninni hefur neitað að segja af sér stjórnarsetu í kjölfar þess að Berlusconi útnefndi hann ekki seðlabankastjóra í Seðlabanka Ítalíu. Berlusconi segist hafa óskað eftir því að Bini Smaghi segði af sér í þágu þjóðarinnar en hann hefur ekki vald til að reka hann úr stjórninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK