Mikil vöxtur í kortaveltu í apríl

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Ekki varð áframhald á því bakslagi í kortaveltu sem varð í mars mánuði. Landinn viðraði kortin sem aldrei fyrr í apríl mánuði, en samanlögð kreditkortavelta og debetvelta einstaklinga innanlands jókst um 6,1% að raungildi í apríl milli ára. Virðist bakslag marsmánaðar því hafa verið tímabundið, segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Í mars var aukningin á þennan mælikvarða aðeins 2,3% og var það hægasti vöxtur þessarar veltu í rúmt ár. Núna virðist hinsvegar vera komið annað hljóð í strokkinn og er vöxturinn á milli ára nú líkari því sem hann hefur verið að meðaltali undanfarna 12 mánuði eða í kringum 6%.

Kreditkortavelta í apríl var samtals 31,4 milljarðar króna, og er það aukning um 8% frá fyrri mánuði og aukning um 7% að raungildi frá sama mánuði fyrra árs. 

Debetkortaveltan í apríl mánuði var samtals  30,7 milljarðar króna eða nánast sú sama og í fyrri mánuði, en aukningin nemur 4,2% að raungildi frá sama mánuði fyrra árs.

Mestur var þó vöxturinn í kortaveltu Íslendinga erlendis. Nemur veltan á erlendri grundu  rétt tæpum 4,8 milljörðum króna og frá sama mánuði fyrra árs hefur hún aukist um 10,5% að raungildi. Skýringin á þessari miklu aukningu er m.a. sú að kreditkortatímabilið sem apríl tölurnar ná til nær yfir páskaferðirnar í ár en í fyrra duttu páskarnir inn í maí tölurnar yfir kortaveltu. Fyrstu fjóra mánuði ársins hefur samanlögð kortavelta Íslendinga erlendis aukist um 7,6% að raungildi frá sama tímabili fyrra árs. Það var Seðlabankinn sem birti tölur um kortaveltu sl. föstudag. 

Erlendir ferðamenn halda fastar í kortin

Fyrstu fjóra mánuði ársins hefur erlendum ferðamönnum sem komið hafa til Íslands fjölgað um 20% milli ára. Þetta er mun meiri aukning en í kortaveltu ferðamanna hér á landi á sama tíma. Þannig nema heildarúttektir erlendra greiðslukorta 14,6 milljörðum króna á fyrstu fjórum mánuðum ársins og er það aukning um rétt rúmlega 8% að raungildi frá sama tímabili fyrra árs, segir í Morgunkorninu.

Vissulega segir kortanotkun ferðamanna ekki alla söguna, en auk korta geta þeir komið með ferðaávísanir eða reiðufé. Engu að síður er það athyglisvert að úttektir korta séu ekki að aukast meira en raun ber vitni með þessari miklu aukningu ferðamanna.  Þrátt fyrir að raungengi krónunnar sé lágt um þessar mundir og Ísland í alþjóðlegu samhengi ódýrara en oft áður virðast erlendir ferðamann ekki taka kaupæði þegar þeir eru hér á landi staddir í líkingu við það sem Íslendingar taka oft á erlendri grundu.

 Athyglisvert verður að fylgjast með úttektum erlendra korta á næstu mánuðum þegar ferðamannatímabilið fer í hönd en útlit er fyrir að nýtt met verði slegið á þessu ári í fjölda erlendra ferðamanna.

Góð vísbending um þróun einkaneyslu

Kortaveltan gefur jafnan góða vísbendingu um þróun einkaneyslunnar. Samkvæmt tölum um kortaveltuna í apríl virðist annars ársfjórðungur fara vel af stað hvað einkaneyslu varðar. Samkvæmt tölum Hagstofunnar jókst einkaneyslan um 4% á síðasta ári. Reyndar gerir Seðlabankinn í nýjustu spá sinni, sem er frá því í febrúar, ráð fyrir að einkaneyslan aukist mun minna á þessu ári eða um 2,2%, en verði engu að síður  áfram einn helsti drifkraftur efnahagsbatans. Seðlabankinn gefur út nýja þjóðhagsspá um helstu efnahagsstærðir næstkomandi miðvikudag samhliða vaxtaákvörðun, m.a. um einkaneyslu, og verður fróðlegt að sjá hvort spá þeirra fyrir þróun einkaneyslu muni breytast frá fyrri spá, segir í Morgunkorninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK