Spá 5,9% verðbólgu

Heimsmarkaðsverð á eldsneyti hefur lækkað um 9% frá síðustu mælingu.
Heimsmarkaðsverð á eldsneyti hefur lækkað um 9% frá síðustu mælingu. AFP

Greiningardeild Arion banka spáir 0,4% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í maí. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan nema 5,9% í maí samanborið við 6,4% í apríl. Hagstofan birtir niðurstöðu fyrir verðmælingu í maí á fimmtudaginn í næstu viku.

Bráðabirgðaspá greiningardeildar fyrir næstu þrjá mánuði tekur þó nokkrum breytingum og aldrei þessu vant er stefnubreytingin niður á við, segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Bauhaus áhrif í verðbólgumælingu

Þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi styrkst á síðustu vikum þá munu áhrifin af veikingu krónunnar mánuðina á undan halda áfram að smitast út í verðlag og eru aðaláhrifavaldar verðbólgunnar í maí. Að því sögðu liggur þó fyrir að hríðlækkandi hrávöruverð á erlendum mörkuðum mun hafa veruleg áhrif til lækkunar VNV, sem kemur einna helst fram í lægra eldneytisverði, segir í Markaðspunktum Arion banka.

„Að okkar mati mun þróun húsnæðisliðarins skipta miklu máli á komandi mánuðum en hann stuðlaði að mikilli hækkun í síðustu mælingu og má telja líklegt að svo verði áfram á næstu mánuðum.

Þó ber að hafa í huga að opnun Bauhaus mun að einhverju leyti koma fram í lægri viðhaldskostnaði á húsnæði og einnig í lægra verði á byggingarvörum og ýmsum tólum og tækjum. Áhrifin gætu því komið fram með margvíslegum hætti á næstu mánuðum en erfitt er segja til um hversu sterk áhrifin verða. Við gerum ráð fyrir einhverjum áhrifum vegna þessa í bráðabirgðaspánni fyrir næstu mánuði,“ segir í verðbólguspá Arion banka.

Bensínlítrinn hefur lækkað um 10 krónur og álagning lítil hér

Heimsmarkaðsverð á eldsneyti hefur lækkað um 9% frá síðustu mælingu. Þetta hefur skilað sér í um 10 kr. lækkun bensínlítrans. „Við teljum hins vegar lítið svigrúm til frekari lækkana eins og staðan er í dag þar sem svo virðist vera sem að olíufélögin hafi lækkað álagningu umtalsvert þegar mesta hækkunarhrinan gekk yfir (veiking krónu og heimsmarkaðsverðs). Álagning eldsneytis á Íslandi er því eins og staðan er í dag lítillega undir sögulegu meðaltali,“ segir í spánni.

Húsnæðisliðurinn í heild sinni hækkaði VNV um 0,18% í apríl. Liðurinn „reiknuð húsaleiga“ (markaðsverð húsnæðis) tekur mið af þriggja mánaða meðaltali fasteignaverðs á landinu öllu. Gríðarleg lækkun á fasteignaverði utan höfuðborgarsvæðisins í byrjun þessa árs (hefur um 20% vægi) dettur því nú út úr meðaltalinu, en verðið úti á landi sem og á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað upp á síðkastið. Eins mun hækkun liðarins „viðhald og viðgerðir“ (u.þ.b. vísitala byggingarkostnaðar í maí) hafa áhrif á liðinn í heild sinni.

Greiningardeild Arion banka telur að flugfargjöld hækki í maí en þau lækkuðu lítillega í síðasta mánuði.

„Að okkar mati er útlit fyrir að ársverðbólgan verði áfram há á næstu mánuðum. Tímabundið munu þó útsöluáhrif í júlí lækka árverðbólguna all hressilega (niður í 5,1%), sem verður ágætis nýbreytni. Hins vegar munu áhrifin eins og venja er ganga til baka á mánuðunum sem þar fylgja eftir,“ segir ennfremur í verðbólguspá greiningardeildar Arion banka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK