Geta búist við þremur olíusvæðum norðan Íslands

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands. mbl.is/Rax

Íslendingar geta búist við því að upp úr 2025 verði þrjú olíusvæði norðan Íslands; á Drekasvæðinu, út af Austur-Grænlandi og við Jan Mayen. Íslensk stjórnvöld stefna að því að byggja upp þjónustu á Norðurlandi við öll olíusvæðin þrjú og hafa átt viðræður við Grænland og Noreg um íslenskar þjónustumiðstöðvar við olíuvinnsluna.

Þetta kom fram í ræðu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra á fundi Arion banka í morgun um Drekasvæðið og hugsanlega olíuvinnslu Íslendinga.

Utanríkisráðherra var bjartsýnn á olíufundi á Drekasvæðinu og kvað rannsóknir síðasta árs hafa leitt fram órækar sannanir fyrir að olíu væri að finna á svæðinu. Hann kvað farsælast fyrir Íslendinga að setja í framtíðinni upp sérstakan auðlindasjóð til að fara með nýtingargjöld sem renna til ríkisins vegna auðlinda í eigu þess, og kvað það sérstaklega nauðsynlegt til að tryggja að hugsanlegur afrakstur af olíuvinnslu á næsta áratug leiddi ekki til ójafnvægis og ofhitnunar í íslenska hagkerfinu.
 
Varðandi uppbyggingu þjónustu á Íslandi fyrir olíusvæðin þrjú upplýsti utanríkisráðherra að hann hefði þegar átt formlegar viðræður við Kuupik Kleist, forsætisráðherra Grænlendinga. Þeir hefðu orðið sammála um að löndin tvö ynnu saman að því að þróa þjónustu og innviði fyrir orkuþríhyrninginn Ísland, Grænland og Jan Mayen-svæðið. Sömuleiðis hefði málið verið tekið nýlega upp í samræðum milli hans og Jonasar Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, og þeir orðið sammála um að taka málið upp í formlegum viðræðum í opinberri heimsókn utanríkisráðherra til Noregs síðar á árinu.
 
Utanríkisráðherra lagði mikla áherslu á að farið yrði í olíuvinnslu norðan Íslands af ýtrustu varkárni. Olíuvinnslu þar ætti aðeins að leyfa á grundvelli ströngustu umhverfisreglna og ekki fyrr en nauðsynlegur öryggisbúnaður vegna mengunaróhappa væri kominn upp.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK