Samþykki greiðslumats í lágmarki

Húsnæðisverð á Englandi lækkaði í júlí
Húsnæðisverð á Englandi lækkaði í júlí mbl.is/Hjörtur

Húsnæðisverð á Englandi lækkaði í fyrsta skipti í sjö mánuði í júlí og fór niður um 0,1%. Venjulega er örlítil lækkun yfir sumarið, en í ár segja sérfræðingar að lækkunin komi fyrr og sé meiri en venjulega. Ástæða lækkandi verðs er aukið framboð og minni eftirspurn auk þess sem hlutfall samþykkts greiðslumats er í lágmarki að því er fram kemur í frétt the Telegraph.

Eftir að verð á húsnæði hafði staðið í stað í júní varð lækkun í júlí. Var lækkunin mest í norðausturhlutanum þar sem það fór niður um 0,5%. London var eini staðurinn þar sem húsnæðisverð hækkaði og fór það upp um 0,1%. Rekja má þessa lækkun til aukins framboðs á fasteignum og minnkandi eftirspurnar. Fór framboðið í síðasta mánuði upp um 1,4% meðan skráðum kaupendum fækkaði um 2,1%. Þegar litið er til þriggja mánaða tímabils fjölgaði skráðum eignum á sölu um 5,2% en kaupendum fækkaði um 2,2%.

Að sögn Richards Donnells, forstöðumanns Hometrack-stofnunarinnar, sem sérhæfir sig í greiningu á húsnæðismarkaði, er eðlilegt að verð lækki örlítið yfir sumarmánuðina. Í ár hafi þessi lækkun aftur á móti byrjað fyrr en áður og verið meiri. Segir hann þetta afleiðingu skuldavanda í evruríkjunum og erfiðleika í hagkerfi Bretlands. Minnkandi getu kaupenda má meðal annars sjá í tölum frá BBA (samtökum breskra banka), en þar kemur fram að í júlí hafi hlutfall samþykkts greiðslumats verið í 15 ára lágmarki. 

Í norðurhluta Bretlands hefur hingað til fasteignaverð lækkað mest, en Donnell heldur því fram að sá hluti geti núna hafa náð botninum. Því til rökstuðnings bendir hann á að hlutfall söluverðs af ásettu verði hafi hækkað síðustu mánuði, meðan það sé enn að lækka í London og suðausturhlutanum. Þar séu því enn líkur á frekari lækkunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK