Spöruðu heilt ár með niðurskurði

Björn Zoëga sinnir læknisstörfum samhliða störfum sínum sem forstjóri Landspítalans.
Björn Zoëga sinnir læknisstörfum samhliða störfum sínum sem forstjóri Landspítalans. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Í fjárlögum í gær var kynnt að Landspítalinn fengi 35 milljarða til almenns reksturs þegar sértekjur hafa verið dregnar frá og er það hækkun um tæplega 2,6 milljarða milli ára. Björn Zoëga, forstjóri spítalans segir í viðtali við mbl.is að það sé jákvætt að þurfa ekki að skera niður, en að spítalinn sé enn sveltur varðandi kaup á nýjum tækjum. Hann ræddi einnig um mikið rannsóknarstarf og uppbyggingu nýs spítala.

36,4 milljarðar samkvæmt fjárlögum

Landspítalinn mun fá tæplega 39 milljarða í almennan rekstur á árinu, en auk þess er úthlutað 173 milljónum í viðhald, 262 milljónir í tæki og búnað og 129 milljónir í nýframkvæmdir. Af því dragast 3122 milljónir vegna sértekna svo heildargjöld spítalans umfram tekjur eru áætlaðar 36,4 milljarðar.

„Hækkunin sem verður á framlaginu til okkar er aðeins til að uppreikna upp í kjarasamningsbundnu hækkun sem verður á launum og kostnaðarauka vegna verðlagsþróun sem er spáð í fjárlagafrumvarpinu“ segir Björn aðspurður um áhrif hækkunar fjárframlaga. Hann gerir því ekki ráð fyrir að þessi hækkun nái að skila sér í aukinni þjónustu eða opnunum sem dregið hefur úr síðustu ár.

Eitt frítt ár með sparnaði 

Á síðustu árum hefur mikill niðurskurður verið hjá spítalanum og ef rekstrarhagræðing frá árinu 2008 er skoðuð á föstu verðlagi ársins 2011, þá má sjá að frá 2008 til 2012 var sparnaðurinn rúmir 32 milljarðar. Það er meira en rekstrarkostnaður spítalans í eitt ár án Rjóðursins og sameiningarinnar við St. Jósefsspítalann. Björn segir að ríkið hafi því á síðustu 5 árum fengið eitt ár frítt vegna niðurskurðarins.

Björn bendir á að framlegð starfsfólks hefur aukist mikið síðustu 10 árin, en hún hefur farið upp um 30%. „Ég held að við náum ekki meiri framlegð út úr starfsfólkinu og það væri mikið að í rekstrinum ef við gætum náð því“ segir Björn, en álag á starfsfólk hefur aukist samhliða framlegðinni. Segir hann að frekari niðurskurður hefði verið ómögulegur og að það hafi verið komið að algjörum þolmörkum.

„Það er jákvætt að við þurfum ekki að skera niður“

Segir hann jákvæð teikn í þessum fjárlögum, en leggur þó áherslu á nauðsyn þess að setja meiri pening í tækjakaup. „Það er jákvætt að við þurfum ekki að skera niður. Við höfum þurft að gera það á hverju ári síðan 2008. Það sem gerir okkur mjög erfitt fyrir er hvað fjárfestingapeningurinn er lítill og hvað við höfum lítinn pening til að fjárfesta í tækjum. Ég bind miklar vonir við að í meðferð Alþingis sjái það að ekki gangi að svelta spítalann svona lengur með fjárfestingar.“

Nokkur aukning hefur verið á útgjöldum til tækja og búnaðar, en Björn segir það að mestu leiti fara í viðhald á eldri búnaði og að mest megnið af nýjum búnaði komi í formi gjafa frá einstaklingum og félagssamtökum sem vilji styrkja spítalann. Þannig fyrirkomulag gangi þó ekki til lengdar og segir hann að ef eðlileg endurnýjun á tækjabúnaði eigi að eiga sér stað þurfi spítalinn um 1 milljarð í þennan lið. Síðan 2002 hefur þessi liður farið stiglækkandi úr um 370 milljónum og er í ár 262 milljónir.

Ný tæki fyrir 7 til 9 milljarða

Talið berst að nýjum spítala í Vatnsmýrinni og Björn segir að ef allt sé tekið með hljóði reikningurinn fyrir nýjum tækjum og tæknilausnum sem spítalinn þurfi upp á eina 12 milljarða. Hluta þess sé þó að finna í tölum vegna byggingarkostnaðar og því þurfi um 7 til 9 milljarða til að nútímavæða tækjaforða spítalans. Nefnir Björn að þar á meðal séu bráðatölvusneiðmyndatæki, stafrænt röntgentæki, tölvusneiðmyndatæki og æðaþræðingarmiðstöð auk fullkominna skurðstofa. Það þurfi því rúmlega 3 til 4 milljarða á ári í tvö ár til að bregðast við þessari þörf að sögn Björns.

Hann segir nýja húsnæðið þó munu borga sig og bendir á að með nýju húsnæði og tækjum komi til töluverðs rekstrarsparnaðar. „Þegar þetta er komið af stað, þá erum við að tala um eitthvað færra starfsfólk, en við erum einnig að tala um 2,5 milljarð í lægri rekstrarkostnað vegna samþjöppunar og að flytja inn í húsnæði sem hentar og að nýta tækjakost sem passar. “

„Við búum við það vandamál að fólk kemur ekki heim úr sérnámi þar sem nýjustu aðstöðu skortir“ segir Björn, en telur að með nýrri tækjum og betri aðstöðu verði ákjósanlegra fyrir nýútskrifaða lækna að flytjast aftur heim. Segir hann góða endurnýjun tækja vera stóran þátt þar að lútandi.

Öflugt rannsóknarstarf sem þarf að hlúa að

Landspítalinn var á árunum fyrir hrun mjög öflugur þegar kom að rannsóknarstarfi og birtingu fræðilegra greina. Ef miðað var við stór háskólasjúkrahús á Norðurlöndunum kom spítalinn best út allra samkvæmt skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar 2011, en árin 2000 til 2008 voru skoðuð. Endaði Landspítalinn meðal annars hærra en háskólasjúkrahúsið í Kaupmannahöfn og Karolinska háskólasjúkrahúsið í Svíþjóð.

Samkvæmt Birni hafa birtar greinar síðan 2008 aukist örlítið, en hann segist hræddur um að önnur háskólasjúkrahús hafi tekið stærri skref fram á við. Hann leggur mikla áherslu á nýsköpun og þátttöku spítalans í rannsóknum, en mikið samstarf hefur meðal annars verið við Íslenska erfðagreiningu og Hjartavernd.

Fækkun nýrra rannsókna

Það sem Björn segist þó helst óttast er fækkun nýrra rannsókna sem byrjað sé á, en fjöldi leyfa sem Siðanefnd Landsspítalans, Siðanefnd stjórnsýslurannsókna og Vísindasiðanefnd hafa samþykkt hefur dregist saman síðustu 2 árin. Segir hann nauðsynlegt að hlúa vel að þessum hluta starfseminnar, því bæði veiti auknar rannsóknir spítalanum betra orðspor og geri honum kleift að bjóða betri þjónustu. 

„Með svona þekkingu fær maður einnig nýjustu þjónustuna fyrir Íslendinga og vonandi verðum við fyrstir til að geta veitt betri þjónustu. Svo kemur í ljós hvort tekjur fylgi í kjölfarið“, en hann nefnir sem dæmi Genome, samstarfsverkefnið við Íslenska erfðagreiningu. „Það auðveldar skimun á þekktum erfðabreytileikum og gerir kleift að finna áður óþekkta erfðabreytileika í þekktum sjúkdómsgenum. Kostnaður við skimun hefur lækkað mikið á síðustu árum og vonast Björn til að hann verði kominn niður fyrir 1000 Bandaríkjadollara á næstu 2-3 mánuðum, en í kjölfarið vonast hann til að auknar tekjur komi inn vegna þess, t.d. erlendis frá. „Aukatekjulindir fylgja næstum alltaf í dag á vestrænum spítölum, hvort sem það eru rannsóknartekjur, eða ef sjúklingar eru fengnir annarstaðar frá.“

Þróun á framlegð vinnuafls á spítalanum
Þróun á framlegð vinnuafls á spítalanum Landspítalinn
Landspítalinn
Landspítalinn mbl.is/Hjörtur
Skipulag nýja Landspítalans
Skipulag nýja Landspítalans Landspítalinn
Fjöldi nýrra rannsókna á Landspítalanum
Fjöldi nýrra rannsókna á Landspítalanum Landspítalinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK