Breyta Hverfisgötu 21 í hótel

Hverfisgata 21 er glæsilegt hús.
Hverfisgata 21 er glæsilegt hús.

RR Hótel ehf. hefur fest kaup á húsi Félags bókagerðarmanna við Hverfisgötu 21, sem verður breytt í íbúðahótel. Breytingar á húsinu verða gerðar í samráði við borgaryfirvöld, Húsafriðunarnefnd og Minjasafn Reykjavíkur.

Innréttaðar verða tíu íbúðir á fjórum hæðum; sjö tveggja herbergja og þrjár stúdíóíbúðir. Byggingafulltrúinn í Reykjavík hefur samþykkt umsókn um endurbæturnar, framkvæmdir hefjast 1. október nk. og er gert ráð fyrir að þeim verði lokið í febrúar 2013, að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Húsið nýtur verndar í grænum flokki, samkvæmt Húsverndarskrá Reykjavíkur, um verndun 20. aldar bygginga.

„Þetta er krefjandi og skemmtilegt viðfangsefni en við höfum ágæta reynslu af því að gera upp eldri virðuleg hús þar sem leitast er við að halda í söguna og byggingarlistina,“ segir Þórður B. Bogason, framkvæmdastjóri RR Hótela, og vísar þar í að á síðasta ári var Hverfisgötu 45, sem áður hýsti m.a. Sendiráð Noregs og Söngskólann í Reykjavík, breytt í 15 íbúða hótel.

„Þar lögðum við út í miklar endurbætur á húsinu í góðri samvinnu og sátt við Húsafriðunarnefnd og skipulags- og byggingaryfirvöld, sem reyndust okkur mjög vel í alla staði. Í endurbótunum var haldið í upprunalega mynd hússins að utanverðu, enda götumynd þess húss friðuð. Það sama gildir um Hverfisgötu 21, þó svo að breytingum séu fleiri skorður settar. Að innanverðu verður kappkostað að allrar stærri breytingar taki mið af uppruna hússins og byggingarstíl þess tíma en að húsið uppfylli jafnframt þær kröfur sem gerðar eru til hágæðagistiaðstöðu í miðborg Reykjavíkur,“ segir Þórður.

Danakonungur gisti í húsinu

Í húsinu, sem byggt var árið 1912, bjuggu fyrsta hálfan annan áratuginn Jón Magnússon, bæjarfógeti og síðar forsætisráðherra,  og kona hans, Þóra Jónsdóttir. Þegar Kristján X Danakonungur kom í opinbera heimsókn til Íslands árið 1926 ásamt Alexandrínu drottningu lentu íslensk stjórnvöld í vanda með að finna bústað sem væri gestunum samboðinn. Loks varð úr að konungshjónunum var fengin gisting á heimili forsætisráðherrahjónanna. Næsti eigandi hússins var Sigurður Jónasson, forstjóri  Tóbakseinkasölu ríkisins, en hann seldi það árið 1941 Hinu íslenska prentarafélagi (sem síðan var eitt af stofnfélögum Félags bókagerðarmanna árið 1980) og hefur félagið haft höfuðstöðvar sínar þar allar götur síðan. Þar var einnig til húsa um árabil Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins. „Það er eftirsjá að húsinu, sem hentar því miður ekki lengur sem skrifstofuhúsnæði fyrir félagið og því var ákveðið að setja það á sölu. Að hafa þar hótel sem heiðrar sögu og minningu hússins er góð leið til að varðveita húsið og halda sögunni á lofti,“ segir Georg Páll Skúlason, formaður Félags bókagerðarmanna.

Í umsögn Minjasafns Reykjavíkur segir m.a.: „Húsið er mjög áberandi kennileiti í borginni. Þær breytingar sem nú er óskað eftir eru í samræmi við gerð hússins og hafa ekki áhrif á götumynd Hverfisgötu.“ Því mælti Minjasafn Reykjavíkur með því að breytingarnar yrðu heimilaðar, enda taki allur frágangur mið af aldri og gerð hússins. Í sama streng tekur Húsafriðunarnefnd í umsögn sinni, þar sem ekki eru gerðar athugasemdir við breytingar á innra rými hússins en mælst til þess að þær taki mið af upphaflegum frágangi. Ekki eru heldur gerðar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á ytra byrði, en lögð áhersla á að þær taki mið af aldri og gerð hússins.

Um hönnun endurbótanna sér Teiknistofa Erlings G. Pedersen. Að sögn Þórðar stendur til að tvær hótelíbúðir í húsinu verði tileinkaðar minningunni um konungsheimsóknina og ein íbúð verður til heiðurs Félagi bókagerðarmanna. „Okkur er það bæði ljúft og skylt að sýna þessu merka húsi og sögu þess þá virðingu sem því ber. Við höfum safnað að okkur töluverðu af heimildum um húsið og Félag bókagerðamanna mun láta okkur eftir myndarlegt bókasafn til varðveislu. Þá fylgja með margar eldri myndum af húsakynnunum og þeim verður gert hátt undir höfði í íbúðum og sameiginlegum rýmum,“ segir Þórður.

Kristján X. Danakonungur gisti í húsinu árið 1926.
Kristján X. Danakonungur gisti í húsinu árið 1926.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK