Hindranir og tækifæri í kvikmyndaframleiðslu hérlendis

Helga Margrét Reykdal, framkvæmdastjóri kvikmyndafyrirtækisins True North á fundi í …
Helga Margrét Reykdal, framkvæmdastjóri kvikmyndafyrirtækisins True North á fundi í morgun Ragnar Þorvarðarson

Stefna Evrópusambandsins er að einskorða endurgreiðslur til evrópskra verkefna og þannig úthýsa meðal annars bandarískum kvikmyndaverkefnum með því að þrýsta á að endurgreiðslum verði hætt til kvikmyndaframleiðenda sem ekki eru frá Evrópu. Þetta segir Helga Margrét Reykdal, framkvæmdastjóri kvikmyndafyrirtækisins True North, en hún var einn af framsögumönnum á fundi Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins í dag. 

Endurgreiðslan gerir okkur samkeppnishæf

Sagði hún að Íslendingar þyrftu að passa upp á þann rétt sinn að geta ráðið sjálfir hvernig endurgreiðslunum væri háttað og þannig trekkt að erlenda kvikmyndaframleiðendur sem koma með töluverðan gjaldeyri til landsins. Endurgreiðslan sem nú sé 20% sé ein aðalástæðan fyrir því að framleiðendur velji að koma hingað til lands, en með því verði Ísland samkeppnishæft, þar sem verðlag sé almennt nokkuð hátt hér miðað við önnur samkeppnislönd.

Mikil velta tengd kvikmyndaverkefnum

Í því samhengi segir hún að heildarvelta erlendra verkefna sem True North hafi staðið fyrir hérlendis á þessu ári nemi á milli 3 og 4 milljörðum og því sé um mikla fjármuni að ræða. Mikill uppgangur hefur verið í greininni hérlendis síðustu ár og segir Helga stórt tækifæri til að bæta við sig í þessum geira ef rétt sé haldið á spilunum.

Í viðbót við að koma með gjaldeyri inn í landið segir Helga að þetta skapi einnig töluverðan fjölda starfa, en starfsmannafjöldi True North fór upp í allt að 300 manns þegar mest lét í sumar. Auk þess hafi komið milli 600 og 800 erlendir aðilar í tengslum við framleiðsluna og þeir kaupi hér bæði vörur og þjónustu. Ekki megi heldur horfa fram hjá þeirri óbeinu auglýsingu sem stórmyndir séu og nefnir hún í því samhengi til dæmis áhuga erlendra aðila á að sjá Jökulsárlón eftir að það hafði birst í nokkrum kvikmyndum. 

Hækkanir valda áhyggjum

Þrátt fyrir metár í ár í fjölda og stærð verkefna segir Helga að nokkrar áhyggjur séu í greininni vegna fyrirhugaðra breytinga á virðisaukaskatti á gistiþjónustu og niðurfellingar á vörugjöldum fyrir bílaleigubifreiðar. Þessir tveir gjaldaliðir eru að sögn Helgu með þeim stærstu fyrir kvikmyndafyrirtæki sem koma hingað og hækkun á þeim geti auðveldlega breytt viðhorfi þeirra til Íslands sem upptökustaðar ef af hækkununum verður. 

Tækifæri á sviði eftirvinnslu

Helga nefndi einnig mikilvægi þess að þjálfa upp íslenska kvikmyndagerðarmenn, það gæti bæði lækkað kostnað við innlenda kvikmyndagerð og einnig gæti það búið til vettvang fyrir eftirvinnslu á erlendum kvikmyndum. Með því mætti skapa enn meiri þjóðartekjur fyrir landið og það eina sem þyrfti væri færir og hugmyndaríkir einstaklingar með góðan tölvubúnað og þekkingu. Þetta hafi meðal annars verið gert í tengslum við tökur á Hringadróttinssögu á Nýja-Sjálandi og þar hafi orðið til mjög sterk fyrirtæki á sviði eftirvinnslu.

Ben Stiller var á meðal þeirra sem komu til Íslands …
Ben Stiller var á meðal þeirra sem komu til Íslands í ár vegna kvikmyndavinnslu mbl.is/Pétur Kristjánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK