Skýrari ábyrgð og verklag

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

Steingrímur J. Sigfússona, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, segir að hugmyndir um heildarumgjörð laga um íslenskt fjármálakerfi séu ekki umbylting, en að þar sé ábyrgð og verklag gert skýrara. Segir hann nauðsynlegt að sameinuð stofnun Fjármálaeftirlits og Seðlabanka yrði mjög valdamikið, en að slíkt væri nauðsynlegt í litlu samfélagi eins og á Íslandi. Hann segist vonast að gengið verði lengra í aðskilnaði fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi en nefndin leggur upp með.

Eins og sagt var frá á mbl.is lagði sérfræðingahópur sem skoðað hefur heildarumgjörð laga og reglna um íslenskt fjármálakerfi í morgun fram tillögur til endurbóta hérlendis. Hugmyndirnar fela meðal annars í sér að komið sé á fjármálastöðugleikaráði sem í sitji embættismenn ráðuneyta sem koma að fjármála og efnahagsmálum auk stjórnenda Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Einnig verði komið á heildarlagaramma fyrir fjármálakerfið og að málefni og stofnanir sem komi að fjármálageiranum verði færð undir eitt ráðuneyti. Nefndin leggur að lokum til að tekið verði á ýmiskonar kerfislægum vandamálum vegna samþjöppunar, hás flækjustigs, lítillar samkeppni og misvísandi hvata í fjármálakerfinu.

Ekki umbylting

Steingrímur segir að ef farið verði eftir þeim ráðleggingum sem fram komi þýði það ekki að umbylting verði á starfseminni á starfseminni sem undir liggi, en þetta séu aftur á móti nokkrar breytingar á ábyrgðar-, skipulags- og stofnaþáttunum og sumpart löggjafaþáttunum.

„Allt eru þetta hlutir sem hafa miklu þýðingu í nútíð og framtíð, sérstaklega ef aftur berja að dyrum einhverjir viðsjáverðir tímar í okkar efnahags- og fjármálalífi. Með þessu er verið að reyna að tryggja að það liggi algjörlega skýrt fyrir hvar ábyrgðin er, hver hefur hvaða hlutverk og hvað verður virkjað“ segir hann og líkir þessu við að ef til almannavarnarástands kemur þá séu viðbragðsaðilar til staðar sem viti hvert þeir eigi að fara og hvað þeir eigi að gera.

Skýrari ábyrgð

Aðspurður um hver verði raunveruleg breyting á ábyrgðarhlutverki ef til þessar hugmyndir verða settar í framkvæmd segir Steingrímur að í dag sé búið að tryggja samstarf Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins með samstarfssamningi sem nýlega var endurnýjaður. Ný rammalöggjöf og fjármálastöðugleikaráð myndi aftur á móti skýra ábyrgðakeðjuna og í reynd myndi það ráð bera höfuðábyrgðina á þessu viðfangsefni, fjármálastöðugleika og öðrum hættum sem steðja að fjármálakerfinu.

Mjög valdamikil stofnun

Sameinuð stofnun Fjármálaeftirlits og Seðlabanka yrði nokkuð valdamikil stofnun og Steingrímur segir að slíkt hafi bæði kosti og galla. Hann vegur þó kostina framar göllunum í svo litlu samfélagi sem Ísland er. „Ef við værum stærra samfélag, milljóna eða tugmilljóna þjóð, þá hefði ég efasemdir um að þjappa þessu svona mikið saman. En ég sé kostina við það fyrir litla stjórnsýslu og lítið samfélag að vera ekki að dreifa kröftunum og tryggja í stórum og öflugum einingum skilvirka starfsemi.“

Hann segir að ef ábyrgðin eigi að vera skýr í svona stórum málum þurfi einnig valdið að vera mikið. Við getum ekki bæði sleppt og haldið. Getum ekki gert ákveðinn aðila skýrt ábyrgan fyrir svona miklu viðfangsefni en um leið dreift því út um dal og hól. Það verður að velja og hafna.“

Steingrímur segist telja það eðlilegt að ríkisstjórn, viðkomandi ráðherrar og yfirmenn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins verði yfir fjármálastöðugleikaráði, en tekur fram að nauðsynlegt sé að störf þeirra sæti eðlilegri gagnrýni og aðhaldi frá Alþingi og samfélaginu og að mikilvægt sé að gerðar séu kröfur um upplýsingagjöf. 

Aðspurður hvort ekki sé varasamt að of miklar upplýsingar séu aðgengilegar sem varða viðkvæm málefni efnahags- og fjármálastöðugleikastjórnar segir hann að það þurfi að taka tillit til aðstæðna. Hann nefnir í því sambandi sem dæmi svipað fyrirkomulag og er í gangi hjá peningastefnunefnd Seðlabankans, þar sem viðkvæmar samtímaupplýsingar séu ekki birtar strax, en þegar fram líður sé það öruggt að þessar upplýsingar verði birtar. Segir Steingrímur að slíkt fyrirkomulag muni fela í sér ákveðið aðhald í sjálfu sér, jafnvel þótt þau gögn verði ekki birt strax. 

Vill ganga lengra í aðskilnaði bankastarfsemi

Í hugmyndum nefndarinnar kemur fram að bankar í slitameðferð þurfi að geta aðgreint mikilvægustu rekstrarþættina, svo sem fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi. Steingrímur segir að skýrslan fari ekki það langt að mæla með fullum aðskilnaði bankastarfseminnar, en bendi á svipaða lausn og mælst hafi vel í Evrópusambandinu, þ.e. Liikanen leiðina. Hún felur í sé að ef fjárfestingastarfsemi verður stærra en ákveðið hlutfall af efnahagsreikningi fjármálafyrirtækis, þá eigi að aðskilja starfsemina. 

Steingrímur segir að hann telji að ganga eigi lengra í þessum efnum, en að hugmyndir nefndarinnar séu áhugaverðar. „Ég tel að það sé verulegur hljómgrunnur í að við göngum lengra en skemmra í þessum efnum. Persónulega finnst mér það áhugaverðar hugmyndir að þessu verði settar skorður og menn verði að fara í fullan aðskilnað ef umfang áhættusamari þátta í starfseminni fer yfir ákveðið mark.“ Í dag eru bankarnir enn að mestu með viðskiptabankastarfsemi, en Steingrímur segir „rétt að birgja brunninn áður en hlutir breytast aftur.“

Á kynningarfundi um skýrsluna í morgun. Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og …
Á kynningarfundi um skýrsluna í morgun. Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, Kaarlo Jännäri, Gavin Bingham og Jón Sigurðsson, nefndarmenn og Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra Þorsteinn Ásgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka