Fyrirtækin á bakvið Drekasvæðisumsóknir

Gunnlaugur Jónsson er einn þeirra sem stendur að félaginu Eykon.
Gunnlaugur Jónsson er einn þeirra sem stendur að félaginu Eykon. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Fjórum fyrirtækjum var í morgun veitt sérleyfi frá Orkustofnun til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu. Þetta eru Faroe Petroleum Norge AS og Íslensk Kolvetni ehf. annars vegar og Valiant Petroleum ehf. og Kolvetni ehf. hins vegar. Einnig var ákveðið að Petoro, olíufélag norska ríkisins, verði þátttakandi í báðum leyfunum, að fjórðungs hlut í hvoru leyfi fyrir sig eins og samningur Íslands og Noregs gerir ráð fyrir.

Félagið Eykon hafði einnig skilað inn umsókn um sérleyfi til rannsókna á svæðinu, en afgreiðslu þess var frestað og umsækjendum gefinn frestur til 1. maí 2013 til að afla samstarfsaðila sem að mati Orkustofnunar hefði nægjanlega sérþekkingu, reynslu og bolmagn til að annast þá starfsemi sem í leyfisveitingu felst.

Eykon

Fyrirtækið Eykon er nefnt eftir Eyjólfi Konráði Jónssyni, alþingismanni og fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins. Félagið er í eigu norsks móðurfélags en að baki því standa Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir, Jón Einar Eyjólfsson, Ragnar Þórisson, Gunnlaugur Jónsson og Terje Hagevang, framkvæmdastjóri hjá norska hluta Valiant Petroleum og olíuleitarstjóri hjá breska móðurfélaginu.

Í samtali við mbl.is segir Gunnlaugur að stefnan hafi alltaf verið að fá annan aðila með frekari sérþekkingu og reynslu inn í félagið á seinni stigum. Með ákvörðun Orkustofnunar verði nú hafist handa við að leita strax að þeim aðila.

Kolvetni ehf. og Valiant Petroleum

Kolvetni ehf. er í Jóns Helga Guðmundssonar í Byko, Gunnlaugs Jónssonar, ráðgjafafyrirtækisins Mannvits og Terje Hagevang. Skiptast eignahlutar jafnt milli aðila en Jón Helgi og Gunnlaugur eiga jafnframt lítinn hluta í Valiant Petroleum vegna kaupa þess á Sagex Petroleum ehf. (áður GeysirPetroleum hf.) sem þeir áttu hlut í.

Valiant Petroleum er breskt félag sem er skráð á markað í London. Stærstu hluthafar félagsins eru AXA Investment Managers og stjórnendur félagsins með samtals 22,4% hlut. 

Faroe Petroleum og Íslenskt kolvetni ehf.

Þriðja umsóknin kemur frá Faroe Petroleum og Íslensku kolvetni ehf. Hið síðarnefnda er í eigu Olís, Verkís og Dreka Holding. Framkvæmdastjóri þess er Þorkell Erlingsson og í stjórn félagsins sitja Kristján Jóhannsson, stjórnarformaður, Gísli Baldur Garðarsson hæstaréttarlögmaður, Þröstur Ólafsson, Eldur Ólafsson og Valgarð Már Valgarðsson.

Faroe Petroleum er færeyskt félag sem, líkt og Valiant Petroleum, er skráð í kauphöllina í London, en stærsti hluthafi félagsins er Dana Petroleum. 

Litlir sem engir hagsmunaárekstrar

Eins og sjá má eru nokkur tengsl milli fyrri umsóknanna tveggja, en Gunnlaugur segir að litlir sem engir hagsmunaárekstrar verði þar á, þar sem sótt er um rannsóknarleyfi á mismunandi stöðum. Skiljanlega sé sóst eftir starfskröftum Hagevang frá fleiri en einu félagi, en Gunnlaugur segir hann búa yfir mikilvægri jarðfræðiþekkingu á svæðinu og að hann sé einn fróðasti maður um svæðið sem hægt sé að finna.

Næstu skref í rannsóknarferlinu er að gera höggbylgju-endurvarpsmyndir sem gefa betri sýn á svæðið, en það hefur nokkuð lítið verið rannsakað. Þar á eftir verður farið í gerð þrívíddarsneiðmynda. Þegar slíkar myndir eru komnar og ef þær gefa góð fyrirheit segir Gunnlaugur að hægt sé að fara út í borun á svæðinu. Það verði þó ekki fyrr en eftir um 10 ár ef allt gengur að óskum.

Sérleyfi til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu. Blátt: Valiant Petroleum …
Sérleyfi til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu. Blátt: Valiant Petroleum ehf og Kolvetni ehf Rautt: Faroe Petroleum Norge AS og Íslenskt Kolvetni ehf. Orkustofnun
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK