Jón Ásgeir beitti Lárus þrýstingi

Jón Ásgeir Jóhannesson og Gestur Jónsson lögmaður.
Jón Ásgeir Jóhannesson og Gestur Jónsson lögmaður. mbl.is

Sérstakur saksóknari hefur höfðað mál gegn fjórum í hinu svokallaða Aurum-máli sem þingfest verður í Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun janúar. Málið er höfðað gegn Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, Magnúsi Arnari Ásgrímssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, einum aðaleiganda bankans, og Bjarna Jóhannessyni, fyrrverandi viðskiptastjóra Glitnis banka.

Samkvæmt ákærunni er Jón Ásgeir ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum Lárusar og Magnúsar Arnars en til vara fyrir hylmingu og til þrautavara fyrir peningaþvætti fyrir að hafa á árinu 2008 í krafti áhrifa sinna í Glitni beitt Lárus og Bjarna fortölum og þrýstingi og hvatt til þess, persónulega og með liðsinni Jóns Sigurðssonar, varaformanns stjórnar Glitnis Banka hf., og Gunnars Sigurðssonar, forstjóra Baugs Group, að Lárus og Magnús Arnar samþykktu að veita félaginu FS38 ehf. 6 milljarða króna lán frá Glitni, honum sjálfum og Fons til hagsbóta.

Fékk hlut í brotinu og naut hagnaðarins

Í ákærunni segir ennfremur að Jón Ásgeir hafi ráðið yfir 40% af hlutafé bankans í gegnum félög sem hann, fjölskylda hans og viðskiptafélagar áttu meirihluta í og stjórnuðu. Þá segir: „Honum gat ekki dulist að með lánveitingunni væru ákærðu Lárus og Magnús Arnar að misnota aðstöðu sína og valda bankanum verulegri fjártjónshættu en að undirlagi ákærða Jóns Ásgeirs heimilaði Fons hf. ráðstöfun á 1.000.000.000 króna af lánsfjárhæðinni inn á reikning ákærða Jóns Ásgeirs sem hann tók við og nýtti í eigin þágu, meðal annars til að greiða 704.916.008 króna ótryggða yfirdráttarskuld sína hjá Glitni banka hf. Fékk ákærði Jón Ásgeir þannig hlut í ávinningi af brotinu og naut hagnaðarins.

Lárus og Magnús Arnar eru ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa 8. eða 9. júlí 2008 misnotað aðstöðu sína og stefnt fjármunum bankans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga er þeir samþykktu í sameiningu að veita einkahlutafélaginu FS38, eignalausu félagi með takmarkaða ábyrgð, 6 milljarða króna lán án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu.

Lánið var veitt til að fjármagna að fullu kaup FS38 ehf. á 25,7% hlut Fons hf. í Aurum Holdings Limited en hlutabréf þess félags voru ekki skráð í kauphöll.

Þetta kemur fram í ákærunni sem gerð var opinber í dag. Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka