Gjá milli atvinnulífsins og stjórnvalda

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, á Iðnþingi í dag.
Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, á Iðnþingi í dag. mbl.is/Ómar

„Öflugt atvinnulíf og arðbær fyrirtækjarekstur er undirstaða lífsgæða fólksins í landinu. Við sem störfum í íslenskum iðnaði upplifum að myndast hafi gjá milli atvinnulífsins og stjórnvalda. Stjórnmálamenn hafa á undanförnum árum orðið viðskila við íslenskan iðnað.“ Þetta er meðal þess sem Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, sagði í ræðu sinni á Iðnþingi í dag.

Svana sagði það frumskyldu stjórnvalda í landinu að tryggja atvinnulífinu viðskiptaumhverfi sem stæðist samanburð við það umhverfi sem viðskipta- og samkeppnisþjóðir byggju við. Vanræktu stjórnvöld það hlutverk liði allt þjóðfélagið, það tapaði í samkeppninni um fólk og fjármagn og lífskjör í landinu versnuðu.

Hún lagði sérstaka áherslu á aukna framleiðni og að horfa nánar til menntunar á raunvísindasviði. „Til að auka framleiðnina þurfum við því að skerpa fókusinn, hætta að sóa tíma fólks í vinnu sem gefur af sér lítinn arð. Vinna sem er þekkt fyrir að gefa af sér mikinn arð er á sviði tækni og verkmenningar. Yfirvöld menntamála verða að skilja þessa staðreynd. Leggja þarf aukna áherslu á raunvísinda-, tækni- og verkmenntun í landinu. Slík menntun er vissulega dýrari en hefðbundið bóknám, en hún skilar líka miklu meiri arði,“ sagði Svana.

Þá fjallaði Svana um aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Hún sagði skiljanlegt að margir væru efins um að aðild væri rétta skrefið, atvinnuleysi væri mikið og viðvarandi í flestum evrulöndum, Evrópa yrði væntanlega svæði hægs vaxtar næstu áratugi miðað við til dæmis Asíu og Norður-Ameríku og rekstur evrunnar kallaði á miklar breytingar, svo sem að reka björgunarsjóði og bræða saman ríkisfjármál evrulandanna. Hún sagði það þó engu að síður sína skoðun að farsælast væri að halda viðræðunum áfram. Þar kæmi fram viðleitni til að búa íslensku atvinnu- og þjóðlífi betri skilyrði og jafna samkeppnisstöðuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK