Svana endurkjörin formaður Samtaka iðnaðarins

Svana Helen Björnsdóttir.
Svana Helen Björnsdóttir.

Á aðalfundi Samtaka iðnaðarins í morgun var Svana Helen Björnsdóttir endurkjörin formaður samtakanna. Á fundinum var samþykkt ályktun um að leiða þurfi til lykta sem fyrst viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu og að þjóðin eigi síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál.

Í stjórnina voru endurkjörin þau Andri Þór Guðmundsson, Guðrún Hafsteinsdóttir og Kolbeinn Kolbeinsson. Nýr í stjórn kemur Ragnar Guðmundsson, Norðuráli en úr stjórn gengur Tómas Már Sigurðsson eftir sex ára stjórnarsetu. Fyrir í stjórn samtakanna eru Bolli Árnason, Lárus Jónsson, Sigsteinn P. Grétarsson og Vilborg Einarsdóttir.

Svana Helen Björnsdóttir fékk 174.694 atkvæði eða 96,5% greiddra atkvæða. Svana Helen verður því formaður Samtaka iðnaðarins fram til Iðnþings 2014. 

Kosningaþátttaka var 80,3%. Alls gáfu sex kost á sér.

Í ályktun sem samþykkt var á fundinum segir m.a.:  „Viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu þarf að leiða til lykta sem fyrst. Nauðsynlegt er að ljúka aðildarviðræðum og að þjóðin eigi síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál. Kjósi Íslendingar að standa utan Evrópusambandsins þarf að huga til framtíðar að öðrum gjaldmiðlakostum en upptöku evru. Engu að síður er ljóst að hin íslenska króna verður lögeyrir Íslands næstu ár hið minnsta, og því er brýnt að til komi öguð hagstjórn í samræmi við peningastefnu til að halda göllum íslensku krónunnar í skefjum en leyfa kostum hennar að nýtast til að endurspegla íslenskt hagkerfi. Strax að loknum kosningum þarf að ljúka verkefnum tengdum þrotabúum bankanna og vinda því næst hratt ofan af fjármagnshöftum í landinu.

Stefnt er að því að gera nýja kjarasamninga í lok árs. Ekki má gera sömu mistök og árið 2011 þegar samið var um ríflegar launahækkanir vegna fyrirheita stjórnvalda um að fjárfestingum og verðmætasköpun yrði hleypt af stokkunum. Þegar það gekk ekki eftir rötuðu nafnlaunahækkanir út í verðlagið og drógu úr auknum kaupmætti landsmanna. Í þetta sinn verður að byggja á langtímasýn aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda um raunhæf tækifæri til verðmætasköpunar hér á landi á næstum árum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK