Meiri fjárfestingar til að auka hagvöxt

„Lífskjör almennings ráðast í bráð og lengd af því hversu öflugt atvinnulíf er í landinu. Eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálamanna að loknum kosningum er að búa fyrirtækjunum þannig skilyrði að þau geti sótt fram, fjárfest, skapað nýja þjónustu, þróað nýjar vörur, ráðið til sín fleira fólk og að kaupmáttur launa geti aukist,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins í upphafi morgunfundar á vegum samtakanna í Silfurbergi Hörpu sem hófst nú klukkan hálfníu í morgun.

Á fundinum munu formenn stærstu stjórnmálaflokkanna fjalla á 90 mínútum um hvernig stjórnmálaflokkarnir ætli sér að örva atvinnulífið.

Formennirnir á fundinum eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.

„Fyrirtækin vonast eftir því að verðbólga verði lág og að hér ríki stöðugleiki. Þau vonast til þess að þeim verði búið rekstrarumhverfi sem jafnast á við það sem best gerist. Óvissa og síbreytilegt efnahagsumhverfi dregur úr getu fyrirtækjanna til að byggja upp. Verðmætasköpun verður minni en ella,“ sagði Björgólfur.

Hann sagði að kröfur um launahækkanir verði umfram það sem fyrirtækin geti staðið undir og leiði einungis til aukinnar verðbólgu. Að vextir verði hærri en í samkeppnislöndunum og að þannig myndist „hinn endalausi spírall launa og verðlags sem Íslendingar þekkja betur en flestar vestrænar þjóðir.“

Jafnvægi í opinberum rekstri mikilvægast

„Mikilvægt fyrir stöðugleika í efnahagslífinu er að halda jafnvægi í rekstri hins opinbera – bæði ríkis og sveitarfélaga. Afgangur á rekstri ríkissjóðs skilar strax lægri vaxtakostnaði.  Atvinnulífið er ekki á móti því að greiða skatta. Hins vegar vilja fyrirtækin sjá breikkun skattstofna, að undanþágur verði fáar og að skattkerfið sé gegnsætt,“ sagði Björgólfur.

Hann sagði að skattkerfið þyrfti að hvetja til fjárfestinga og auðvelda fyrirtækjum að ráða fólk til starfa. Einnig þurfi að hvetja fyrirtæki til að stofna ný fyrirtæki og þau fái að njóta þess þegar vel gangi.

„Það getur einnig verið liður í því að bæta hag almennings í landinu að endurskoða frá grunni flókið kerfi vörugjalda, tolla og innflutningshafta,“ sagði hann.

„Fjárfestingar hér eru nú minni en um áratugaskeið. Þetta á bæði við um fjárfestingar í atvinnulífinu og einnig um fjárfestingar hins opinbera. Afleiðingin er sú að framleiðslutækin og innviðirnir eru að ganga úr sér. Og eftir því sem lengri tími líður lengist sá tími sem það tekur að endurheimta fyrri styrk. Á meðan halda fyrirtæki í samkeppnislöndunum áfram að bæta sig, fjárfesta í nýrri tækni, stunda öfluga nýsköpun og vöruþróun,“ sagði Björgólfur

„Besta leiðin til að auka hagvöxt í landinu er að auka fjárfestingar og þá sérstaklega í útflutningsframleiðslunni. Það þarf einnig að draga úr hindrunum á beinni erlendri fjárfestingu og leggja áherslu á að hún aukist. Með auknum umsvifum í atvinnulífinu aukast einnig tekjur ríkis og sveitarfélaga. Arðbærar fjárfestingar eru besta og fljótvirkasta leiðin til að bæta hag fyrirtækjanna, hins opinbera og um leið alls almennings í landinu,“ sagði Björgólfur í ræðu sinni á fundinum sem er vel setinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK