ESA stefnir Íslandi

Peningaseðlar Íslenskir Dollarar og Bresk pund
Peningaseðlar Íslenskir Dollarar og Bresk pund mbl.is/Árni Sæberg

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að stefna Íslandi fyrir EFTA dómstólinn fyrir að skattleggja óinnleystan hagnað fyrirtækja sem renna saman þvert á landamæri. Þá mun stofnunin stefna Íslandi fyrir EFTA dómstólinn vegna ófullnægjandi innleiðingar tilskipunar sem breytir vissum reglum varðandi eiginfjárkröfur banka. 

Samkvæmt íslenskum skattareglum eru íslensk fyrirtæki sem renna saman við önnur fyrirtæki þvert á landamæri krafin um greiðslu skatts af öllum haganaði tengdum eignum og hlutabréfum þegar þau flytja starfsemi sína frá Íslandi jafnvel þó hagnaðurinn hafi aldrei verið innleystur. Á sama tíma þurfa íslensk fyrirtæki sem renna saman við önnur fyrirtæki innan Íslands ekki að greiða skatt af slíkum óinnleystum hagnaði. Það er álit ESA að íslensku reglurnar hindri bæði staðfesturétt fyrirtækja og frjálst flæði fjármagns innan EES. Íslensku skattareglurnar gera það að verkum að það er ekki eins aðlaðandi fyrir fyrirtæki á Íslandi að nýta sér rétt sinn til þess að stofnsetja sig í öðrum EES ríkjum. 

ESA dregur ekki í efa rétt Íslands til þess að skattleggja hagnað sem varð til á meðan fyrirtæki var staðfest á Íslandi. Engu að síður þarf Ísland að beita vægari úrræðum til þess að vernda skattlagningarrétt sinn. Í stað þess að krefja fyrirtæki um greiðslu skatts af óinnleystum hagnaði þegar þau flytja frá Íslandi gæti Ísland t.d. boðið fyrirtækjum að fresta greiðslu skattsins.

Ófullnægjandi innleiðingar tilskipunar

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) mun einnig stefna Íslandi fyrir EFTA dómstólinn vegna ófullnægjandi innleiðingar tilskipunar sem breytir vissum reglum varðandi eiginfjárkröfur banka. 

Tilskipun 2009/111/EB er hluti af löggjafarpakka (CRD II) sem er ætlað að tryggja fjárhagslegt öryggi banka og fjárfestingarfyrirtækja. Meginbreytingarnar sem kynntar voru með tilskipuninni stefndu að því að bæta meðhöndlun á stórum áhættuskuldbindingum, bæta reglur um eigið fé banka, stýringu lausafjárháhættu og áhættustýringu vegna verðbréfunar. 

Tilskipunin átti að vera innleidd að fullu af hálfu Íslands fyrir 1. janúar 2012. ESA gaf út Rökstutt álit í september 2012 þar sem Ísland var hvatt til að grípa til viðeigandi ráðstafana til að innleiða ákvæði tilskipunarinnar. Ísland hefur ekki gert það og því verður málinu vísað til EFTA dómstólsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK