Vöruskiptin hagstæð um 30,5 milljarða

Vöruskiptin við útlönd voru hagstæð um 30,5 milljarða króna á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Á sama tíma í fyrra voru vöruskiptin hagstæð um 27,7 milljarða króna.

Í aprílmánuði voru fluttar út vörur fyrir 51,5 milljarða króna og inn fyrir tæpa 46,7 milljarða króna fob (50,5 milljarða króna cif). Vöruskiptin í apríl, reiknuð á fob verðmæti, voru því hagstæð um 4,9 milljarða króna. Í apríl 2012 voru vöruskiptin hagstæð um 9,2 milljarða króna á gengi hvors árs.

Fyrstu fjóra mánuðina 2013 voru fluttar út vörur fyrir 207,8 milljarða króna en inn fyrir 177,3 milljarða króna fob (191,8 milljarða króna cif). 30,5 milljarða króna afgangur var því á vöruskiptum við útlönd, reiknað á fob verðmæti, en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 27,7 milljarða á gengi hvors árs. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 2,8 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma árið áður, samkvæmt Hagstofu Íslands.

Fyrstu fjóra mánuði ársins 2013 var verðmæti vöruútflutnings 1,2 milljörðum eða 0,6% meira á gengi hvors árs en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 52,1% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 2,1% minna en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 44% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 5,5% meira en á sama tíma árið áður.
Fyrstu fjóra mánuði ársins 2013 var verðmæti vöruinnflutnings 1,6 milljörðum eða 0,9% minna á gengi hvors árs¹ en á sama tíma árið áður, aðallega vegna minni innflutnings á skipum og flugvélum. Einnig minnkaði innflutningur á  hrá- og rekstrarvörum en á móti kom aukinn innflutningur fjárfestingavara, annarra neysluvara og á mat og drykkjarvöru.

Vöruskipin hagstæð um 77,3 milljarða í fyrra

Á árinu 2012 voru fluttar út vörur fyrir 633 milljarða króna fob en inn fyrir 555,7 milljarða króna fob, 597,3 milljarða króna cif. Afgangur var því á vöruskiptum við útlönd, reiknað á fob verðmæti út- og innflutnings, sem nam 77,3 milljörðum króna en 97,1 milljarðs króna afgangur var árið 2011 á gengi hvors árs.

Vöruútflutningur jókst um 2,1% frá fyrra ári á gengi hvors árs og vöruinnflutningur um 6,3%. Hlutur iðnaðarvöru var 52,3% alls vöruútflutnings og hlutur sjávarafurða var 42,4% en í vöruinnflutningi voru stærstu vöruflokkarnir hrá- og rekstrarvörur með 29,2% hlutdeild og fjárfestingarvörur með 21,0% hlutdeild.

Stærstu viðskiptalönd voru Holland í vöruútflutningi og Noregur í vöruinnflutningi og var EES þýðingarmesta markaðssvæðið, jafnt í vöruútflutningi sem vöruinnflutningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK