Sigurður segir rannsóknina vera farsa

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings segir í viðtalinu að hann …
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings segir í viðtalinu að hann hafi ekkert ólöglegt gert. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings banka, segir að mál sérstaks saksóknara gegn sér sé orðið að farsa og að þrátt fyrir fimm ára rannsókn hafi ekkert fundist gegn sér eða öðrum stjórnendum bankans. Þetta kemur fram í viðtali við hann sem birtist í Affärs världen í Svíþjóð, en Sigurður viðurkennir þar að hann hafi gert mörg mistök með Kaupþing, þótt ekkert af þeim sé lögbrot.

Seldi húsið og lifir á sparnaði konunnar

Þá ræðir Sigurður um hversu sérstakur saksóknari sé orðið stórt embætti og líkir því við að um 3.700 manns væru hjá slíku embætti í Svíþjóð og 8.000 manns undir grun fyrir saknæmt athæfi. Í viðtalinu segir hann að síðustu ár hafi farið illa með sig fjárhagslega, nú eigi hann enga peninga og lifi á sparnaði konunnar sinnar. Þá hafi hann þurft að selja húsið þeirra í London og leigi nú þar í staðinn, en húsið kostaði á sínum tíma um 2 milljarða íslenskra króna.

Segir hæfileikaríkasta fólkið ekki fá að vinna

Í greininni fer Sigurður yfir rannsóknir sérstaks saksóknara og gagnrýnir þann mikla fjölda sem er undir grun og segir að 300 einstaklingar hér á landi, sem séu okkar hæfileikaríkasta fólk, geti ekki unnið vegna þessara mála. Þannig hafi hann meðal annars bara getað sinnt ráðgjafarstörfum í litlum mæli, en hafi enga fasta vinnu. Þegar hann er spurður út í al-thani málið segir Sigurður að hann hafi ekki kvittað undir neitt í því máli og ekki gert neitt rangt.

Sigurður átti húsnæði í London, en hann segir í viðtalinu að hann hafi þurft að selja það vegna slæmrar fjárhagsstöðu og nú leigi hann í London. Hann segir þessa rannsókn hafa tekið mikið á, en hann var handtekinn af efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar árið 2011 í kjölfar rannsóknar á Kaupþingi. Sigurður bendir á að eftir það hafi öllum gögnum verið skilað og yfirmaður efnahagsbrotadeildarinnar þurft að segja af sér.

Gerði ekkert ólöglegt hjá Kaupþingi

Eftir standi þó rannsókn sérstaks saksóknara og talar Sigurður um hana sem farsa sem hafi tekið allt of langan tíma. Hann viðurkennir að margt hafi verið gert rangt hjá Kaupþingi en að ekkert af því hafi verið ólöglegt eða brot á lögum. Segir hann að meðal annars hafi verið farið of hratt í stækkun, þeir hafi ætlað sér að stækka bankann of mikið og að færa hefði átt bankann út til Bretlands og gera upp í annarri mynt.

Þegar talið berst að Sigurði sjálfum segir hann að ekki sé hægt að horfa í baksýnisspegilinn, heldur að horfa þurfi fram á veginn. Hann spyr blaðamann hvort hann hafi frekar átt að hoppa í höfnina eða leggja sig inn á geðdeild, en svarar því sjálfur til að hann hafi valið að berjast gegn þeim ásökunum sem hann hefur fengið á sig.

Lesa má viðtalið í heild hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK