Landsbankinn ekki á leið í þrot

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir stöðu Landsbankans mjög trausta. Hann segir frétt The Guardian um að bankinn færi á hliðina ef hann yrði að standa við þá endurgreiðsluáætlun sem fyrir liggur vera uppblásna.

„Við áttum fund með slitastjórn gamla Landsbankans (LBI) og óformlegu kröfuhafaráði LBI á fimmtudaginn í London. Fundurinn var haldinn til að fylgja eftir beiðni okkar frá 28. maí þar sem ég óskaði eftir viðræðum um að breyta skuldabréfunum til gagnkvæms ávinnings fyrir báða aðila,“ segir Steinþór.

„Fundurinn var góður og mikilvægur til að koma af stað viðræðum milli aðila. Við erum bjartsýn um að heyra frá LBI á næstu dögum með svar við þessari beiðni.“

Hann bætir við að umfjöllun The Guardian um málið sé uppblásin. „Í fréttinni er ansi mikið ofsagt og teygt og togað. Við höfum greitt upp gjalddaga að mestu fyrir árið 2014 og eigum nú þegar lausafé til að greiða gjaldaga 2015.“

Greiddu upp alla gjalddaga ársins 2014

Hann segir nýja Landsbankann hafa greitt 73 milljarða króna á síðasta ári og greitt með því upp alla gjalddaga 2014 og inn á 2015. „Síðan gáfum við út skilyrta skuldabréfið á þessu ári, þannig að núna eru komnar litlar greiðslur inn á 2014 sem við getum auðveldlega staðið skil á. Við höfum markvisst verið að stýra gjaldeyrisstöðu bankans og höfum safnað töluvert af lausu fé. Í dag gætum við greitt svipaðar upphæðir inn á skuldina og við greiddum þá.“

Til skamms tíma segir hann bankann því mjög sterkan. „Vandamálið er, sem við höfum alltaf sagt, að við þurfum að endurfjármagna okkur fyrir árið 2016. Landsbankinn er stærsti lánveitandi íslenskra fyrirtækja og mikið af okkar viðskiptavinum eru með tekjur í erlendri mynt. Það er því eðlilegt að þessir aðilar taki lán í erlendum myntum til að draga úr áhættu í sinni starfsemi.“

Stóð aldrei til að greiða upp öll erlend lán

Hann segir stefnu bankans að lána þessum mikilvægu atvinnugreinum um komandi framtíð í erlendri mynt. „Það hefur því aldrei staðið til hjá okkur að greiða niður allar skuldir okkar í erlendri mynt. Við þurfum að hafa jafnvægi í okkar efnahagsreikning.“ 

Hann segir alla sem hafa fylgst náið með stöðu bankans hafa vitað að bankinn þurfi að endurfjármagna sig fyrir árið 2016. „Til miðlungslangs tíma er óvissa um hvernig muni ganga að endurfjármagna bankann vegna stöðu á erlendum lánamörkuðum. Út af þessari óvissu hefur Seðlabankinn sagt að þeir séu ekki tilbúnir að leyfa föllnu bönkunum að greiða sitt erlenda lausafé til sinna kröfuhafa. Þar sem það eru fleiri sem vilja ná í gjaldeyri en þjóðarbúið ræður við með góðu móti til skamms tíma eru höft hér á landi. SÍ fylgist náið með að viðskiptajöfnuðinn og staða eigna og skulda ī erlendri mynt stefni í að vera í lagi á næstu árum.“

Gamli og nýi Landsbankinn funda í London

Bankinn þolir ekki stífar endurgreiðslur

Steinþór Pálsson
Steinþór Pálsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK