Auðveldar ræktun í þróunarlöndum

Verkefnið sem hlaut fyrstu verðlaun gæti auðveldað framleiðslu áburðar til …
Verkefnið sem hlaut fyrstu verðlaun gæti auðveldað framleiðslu áburðar til muna og gagnast bændum í þróunarlöndum til að framleiða eigin áburð. Kristján Kristjánsson

Nýstárleg aðferð til þess að breyta nitri í ammóníak sem mun auðvelda áburðarframleiðslu varð hlutskörpust í samkeppninni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands. Þau voru afhent í fimmtánda sinn í Hátíðasal skólans í dag.

Alls barst 21 tillaga í samkeppnina af flestum fagsviðum skólans og voru mörg verkefnanna afar vel unnin að mati dómnefndar auk þess að vera frumleg, hagnýt og samfélagslega mikilvæg. Eftir nokkra yfirlegu valdi dómnefnd þrjú verkefni sem hún taldi hlutskörpust, að því er segir í tilkynningu frá skólanum.

Auðveldar áburðarframleiðslu í þróunarlöndum

Fyrstu verðlaun, sem nema einni milljón króna, voru veitt fyrir verkefnið „Verkfræðileg hönnun á efnahvötum: Áburður framleiddur á hagkvæmari hátt“. Egill Skúlason, lektor við Raunvísindadeild, stendur að verkefninu ásamt Younes Abghoui, Önnu Garden, Valtý Frey Hlynssyni, Snædísi Björgvinsdóttur og Hrefnu Ólafsdóttur.

Um er að ræða nýstárlega aðferð þar sem rafmagn eða sólarljós er nýtt til þess að breyta nitri úr andrúmsloftinu og vatni í ammóníak sem síðan má auðveldlega nota til áburðarframleiðslu. Aðferðin hefur gríðarlega hagnýtingarmöguleika og kann að gagnast um allan heim og þá sérstaklega bændum í þróunarlöndum sem geta þá sjálfir framleitt sinn eigin áburð.

Eiturefnavörn og þorskar

Önnur verðlaun, 500 þúsund krónur, hlaut verkefnið „Meðferð gegn síaníðeitrun”. Að baki verkefninu stendur Sigríður Guðrún Suman, dósent við Raunvísindadeild. Sigríður hefur þróað virkt mótefni við síaníðeitrun sem sett er í lyfjapenna en þannig má bæði auðvelda og flýta verulega fyrir meðferð þeirra sem verða fyrir slíkri eitrun í bruna, slysum í iðnaði eða efnahernaði. Í dag er ekki til meðferð við eitruninni sem hægt er að nota í bráðatilfellum. Sótt hefur verið um einkaleyfi á uppfinningunni í samvinnu við Hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala með það fyrir augum að selja uppfinninguna til lyfjafyrirtækja. Grunnrannsóknir vegna verkefnisins hlutu styrk frá National Institute of Health, National Institute of Neurological Disorders og Stroke, CounterAct Research Network.

Þriðju verðlaun, 250 þúsund krónur, hlýtur verkefnið „Þorskaslóð, þverfræðilegt frumkvæði í ferðaþjónustu“. Að verkefninu standa Ragnar Edvardsson og Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir sem bæði starfa við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Verkefnið snýr að stafrænni miðlun á þverfræðilegum rannsóknum á veiðum, nýtingu og líffræði þorsks við Vesturland og Vestfirði til uppbyggingar ferðaþjónustu á svæðinu. Fyrirhugað er að opna heimasíðu og fyrir niðurhal á snjallsímaforriti í apríl 2014.

Sem fyrr segir voru Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands nú afhent í fimmtánda sinn en með þeim vill Háskóli Íslands stuðla að hagnýtingu verkefna og nýsköpunar innan skólans og verðlauna þær tillögur sem skara fram úr.

Rögnvaldur Ólafsson fékk heiðursverðlaun

Við úthlutun Hagnýtingarverðlaunanna var dr. Rögnvaldur Ólafsson, dósent í eðlisfræði og forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands, heiðraður fyrir framlag sitt til rannsókna og nýsköpunar. Rögnvaldur, sem lengi hefur veitt dómnefnd Hagnýtingarverðlaunanna forystu, hóf störf við Háskóla Íslands árið 1973 og hefur verið virkur í frumkvöðlastarfi og rannsóknum, m.a. sem einn af stofnendum Marels. Rögnvaldur lætur af störfum um áramót fyrir aldurs sakir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK