Hátækni lokað og starfsfólki sagt upp

Hátækni hefur verið umboðsaðili fyrir Nokia síma frá 1985, en …
Hátækni hefur verið umboðsaðili fyrir Nokia síma frá 1985, en samdráttur í sölu þeirra síðustu ár er meðal ástæðna fyrir því að félagið var tekið yfir af Landsbankanum. Búið er að segja upp starfsfólki og verið er að selja rekstrareiningar fyrirtækisins. AFP

Verslun Hátækni hefur verið lokað og starfsmönnum fyrirtækisins sagt upp. Þá hafa nokkrar deildir verið seldar út úr rekstrinum og líklegt er að einhverjir starfsmenn Hátækni muni fylgja með þeim sölum. Þetta segir Kristján Gíslason, stjórnarformaður Hátækni, í samtali við mbl.is, en hann telur að rannsókn Samkeppniseftirlitsins, sem stóð í þrjú ár, hafi komið í veg fyrir að fyrirtækið gæti brugðist við breyttum aðstæðum. Tæplega tuttugu manns störfuðu hjá Hátækni, en félagið var meðal annars umboðsaðili fyrir Nokia-síma, auk annarra raftækja.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins dýrkeypt

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að breytingar á farsímamarkaðinum, þar sem Nokia missti fyrsta sætið, hafi haft mjög neikvæðar afleiðingar á rekstur Hátækni. Þetta megi sjá hjá öllum umboðsaðilum fyrirtækisins um allan heim, en iPhone- og Android-símar hafa aukið markaðshlutdeild sína á kostnað Nokia á síðustu árum.

Kristján segir í tilkynningunni að á sama tíma og samdráttur hafi orðið í sölu á Nokia-símum hafi Hátækni verið tekin til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu, en sú rannsókn tók um þrjú ár og varð félaginu mjög dýrkeypt. Segir hann að ógjörningur hafi reynst að bregðast við niðursveiflunni í símasölu með að bæta vöruúrval þar sem birgjar vildu ekki gera umboðssamning við félagið meðan það væri enn til rannsóknar. Rannsókninni lauk í mars á þessu ári og greiddi félagið 50 milljón króna sekt til að ná sátt um lyktir málsins. Rannsóknin var gerð vegna gruns um ólögmætt samráð milli Hátækni og Tæknivara á heildsölumarkaði fyrir sölu á farsímum.

Búið að selja nokkrar deildir út úr rekstrinum

Á síðustu árum hefur Hátækni verið rekin með tapi sem hefur verið mætt með auknu hlutafé. Kristján segir að ákvörðun Nokia um að hætta við að hefja framleiðslu Android-síma hafi svo markað lokaákvörðun fyrirtækisins um að láta Landsbankann taka félagið yfir. Segir hann að ljóst sé að einhvern tíma muni taka fyrir Nokia að ná vopnum sínum aftur og sú bið sé of kostnaðarsöm fyrir eigendurna.

Kristján segir að hita- og loftræstideild auk verslunar og innflutningsdeildar hafi nú þegar verið seldar út úr rekstrinum. Ekki er gefið upp að svo stöddu hverjir kaupendur eru, en Kristján segir að verið sé að bíða eftir samþykki birgja um kaupin. Hann segir að starfsmenn Hátækni hafi verið tæplega tuttugu og vonast hann til að einhverjir muni halda vinnunni með kaupunum, en að ljóst sé samt að einhverjir muni missa vinnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK