Leigan skrúfuð í botn í miðbænum

Ferðamönnum hefur fjölgað mikið í Reykjavík undanfarin ár og ýtt …
Ferðamönnum hefur fjölgað mikið í Reykjavík undanfarin ár og ýtt af stað hálfgerðu gullgrafaraæði þar sem allir vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð. Það hefur leitt til hækkunar á leigu- og fasteignaverði. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Mikil aukning hefur orðið í komum ferðamanna hingað til lands síðustu ár og mælist hún í tugum prósenta. Ferðamenn eru almennt duglegir að fara á veitingastaði og kaffihús, en þrátt fyrir þessa miklu aukningu hefur ágóðinn að litlu leyti skilað sér, vegna mikillar fjölgunar staða. Þá hefur fasteignaverð hækkað mikið og slíkt hefur ýtt undir það sem kallast að taka snúning, eða fara í gjaldþrot og setja reksturinn upp á nýrri kennitölu. Þetta segir Einar Sturla Moinichen, eigandi Hressingarskálans, Bjarna Fel og Sushibarsins, en hann hefur lengi verið virkur í þessum geira og tekið þátt í starfi veitinganefndar Samtaka ferðaþjónustunnar.

Gífurleg samkeppni og versnandi nýting

Samkeppnin í veitingageiranum hefur verið gífurlega mikil síðustu árin að sögn Einars, en með auknum straumi ferðamanna hafa margir sýnt því áhuga að opna nýja veitingastaði og kaffihús. Með hverju skipti sem eftirspurnin aukist eitthvað séu tveir nýir staðir opnaðir og nú sé staðan orðin þannig að framboðið sé meiri en eftirspurnin. Þetta hafi þau áhrif að nýting margra staða sé 30-50% og því fái ferðamenn það á tilfinninguna að enginn staður sé verulega vinsæll, eins og hafi verið staðan fyrir nokkrum árum. Þetta hafi áhrif á upplifun ferðamanna, en hann segir að fólk þekki það af eigin raun að þegar það fari utan leiti það almennt að vinsælustu stöðunum til að fara á.

Leigan skrúfuð í botn

Til viðbótar við fjölda staða segir Einar að fasteignaverð hafi hækkað mikið miðsvæðis og það dragi úr möguleikum veitingastaðaeigenda til halda úti arðbærum rekstri. „Menn hafa komist inn í ágætt húsnæði og opnað góðan rekstur. Um leið og fasteignaeigandi sér það fara þeir að skrúfa upp leiguna alveg í botn,“ segir hann. Þetta leiðir til þess að margir veitinga- og kráreigendur eru í erfiðri stöðu og jafnvel komnir í greiðslustöðvun.

Þrátt fyrir tíð gjaldþrot virðist alltaf koma upp nýir staðir. Mikið er um staði þar sem sömu aðilar koma á nýrri kennitölu þótt sú gamla fari á hausinn og oft sé það gert með einhvers konar kúnstum. Um daginn greindi mbl.is frá því að Laundromat Cafe hefði farið í gjaldþrot. Einar segir að þar sé dæmi um að viðkomandi rekstraraðilar hafi ekki greitt gjöld af launum til Tollstjóra. Svo taki menn snúning og þær skuldir afskrifaðar og í verstu dæmunum sé þessi leikur farinn á nokkra ára fresti og þannig komist hjá milljóna kostnaði. Þetta leiði til þess að þessir aðilar geti greitt hærri laun því þeir komast hjá því að greiða launatengd gjöld.

Leiguverð hækkar þrátt fyrir rekstrarerfiðleika

En hvernig kemst sama fólkið upp með að reka nýja staði þrátt fyrir að vera búið að brenna brýr að baki sér, t.d. í viðskiptum við birgja? Það gerist til dæmis með því að leigusalar aðstoði við snúninginn. Þeir fara þá fram á að allar greiðslur sem komi inn þegar staðan er orðin slæm renni til sín og semja svo um nýjan leigusamning við nýja og ferska kennitölu. Birgjarnir og ríkið eru svo látin sitja eftir með sárt ennið. 

Með þessu móti kemst leigusalinn alltaf hjá því að lækka leiguna og fasteignaverð heldur áfram að hækka. Einar segir að verðið sé þannig skrúfað óeðlilega mikið upp. Strax og samningar takist við nýjan rekstraraðila um hærra leiguverð sé verðmæti fasteignarinnar hækkað og selt áfram til næsta kaupanda eða fasteignasjóðs. Það getur því verið hagur fasteignaeigandans að taka þátt í snúningi að hans sögn.

Ekki hár aldur skemmtistaða

Mbl.is gerði óformlega könnun á aldri skemmtistaða og kráa í Reykjavík og tók stikkprufu á 23 stöðum. Slíkur samanburður segir þó ekki alla söguna, þar sem sumir staðir hafa tekið upp nýja kennitölu við skipulagsbreytingar og aðrir fengið eldri kennitölu þegar þeir hófu rekstur. En athugunin leiddi þó í ljós að rétt tæplega helmingur staðanna er með kennitölu sem er yngri en þriggja ára. Það er því ljóst að þó nokkur endurnýjun á sér stað í þessum geira og nýjar kennitölur eru ekki óalgengar.

Einar hefur áhyggjur af því að með þessu móti muni staðirnir að endingu kikna og fleiri en einn og einn fari á hausinn á skömmum tíma. „Þá getur enginn borgað leigu og þá myndast aftur offramboð á stöðum,“ segir Einar, en hann líkir ástandinu við bólumyndun þótt hann sé ekki tilbúinn að segja hvort hún sé á leiðinni að springa á næstunni eða á næstu árum. „Þetta er eins og hlutabréf, ég er að sjá hlutabréfamarkaðinn gerast í fasteignamarkaðinum,“ segir hann og bendir á að töluvert óðagot eigi sér nú stað á fasteignamarkaðinum þótt það sjáist ekki beint út á götu.

Þrátt fyrir erfiðan rekstur margra veitinga- og skemmtistaða hefur leiga …
Þrátt fyrir erfiðan rekstur margra veitinga- og skemmtistaða hefur leiga og fasteignaverð hækkað mikið miðsvæðis. mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK