Verðbólgumarkmið gætu haldist í ár

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Ólöf Nordal formaður bankaráðs Seðlabankans og Már …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Ólöf Nordal formaður bankaráðs Seðlabankans og Már Guðmundsson Seðlabankastjóri. mbl.is/Golli

„Haldist gengi krónunnar tiltölulega stöðugt eru horfur á að verðbólga haldist við markmið á þessu ári. Leggjast þar á eitt hagstæð verðbólguþróun það sem af er þessu ári, vísbendingar um að hækkun launakostnaðar hafi verið minni á síðustu misserum en áður var talið, að kjarasamningar sem náðust um áramótin og samrýmdust verðbólgumarkmiði virðast ætla að verða ráðandi varðandi flesta aðra kjarasamninga og að horfur eru á að alþjóðleg verðbólga verði á næstunni nokkru minni en áður var spáð.“

Þetta sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, meðal annars í ræðu sinni á ársfundi Seðlabanka Íslands sem fram fór í dag. Þessu hefði verið öfugt farið á síðasta ári þegar verðbólga og verðbólguvæntingar hafi lengst af verið vel fyrir ofan verðbólgumarkmið bankans á sama tíma og efnahagsbatinn hafi sótt í sig veðrið og verðbólguspár miðað við þáverandi gengi bent til þess að taka myndi nokkurn tíma að ná markmiðinu. Þetta hafi breyst í febrúar síðastliðnum þegar verðbólgumarkmiðið hafi náðst í fyrsta sinn síðan snemma árs 2011.

Verðbólga gæti aukist til lengri tíma litið

„Litið til lengri tíma en árs gæti verðbólgan hins vegar aukist á ný þegar slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum og áhrifa aukinnar fjárfestingar og skuldalækkunaraðgerða gætir með meiri þunga í innlendri eftirspurn. Hvað það gæti þýtt varðandi verðbólgustigið ræðst af framvindu verðbólgu og verðbólguvæntinga á þessu ári og öðrum þáttum sem gætu haft áhrif á eftirspurn á næstu misserum. Það er verkefni peningastefnunefndar á næstunni að ákveða með hvaða hætti verður brugðist við mismunandi horfum til skemmri og lengri tíma varðandi þróun verðbólgu með það að leiðarljósi að hún haldist áfram við markmið,“ sagði hann ennfremur.

Seðlabankastjóri gerði einnig að umfjöllunarefni sínu afnám gjaldeyrishaftanna og sagði að stóra myndin í þeim efnum hefði lítið breyst síðustu misserin. Hún fælist í því að aðgangur innlendra aðila fyrir utan ríkið og Seðlabankann að erlendum lánamörkuðum væri takmarkaður. Á sama tíma væri fyrirsjáanlegt að viðskiptaafgangur næstu ára yrði ekki nægur til þess að fjármagna samningsbundnar afborganir erlendra lána að óbreyttu. „Þá eru hugsanlega kvikar krónur í höndum erlendra aðila nú um fimmtungur landsframleiðslu og gætu farið upp í nærri hálfa landsframleiðslu ef krónueignir búa föllnu bankanna yrðu að fullu innheimtar og greiddar kröfuhöfum. Ísland hefur hins vegar engan afgang af gjaldeyristekjum til að leysa út þessar krónustöður.“

Aðeins eitt tækifæri til að gera upp búin

Lausnin í þessum efnum fælist í því að dreifa endurgreiðslum erlendra lána, ganga frá þeim krónuvanda sem tengist uppgjöri búa fallinna fjármálafyrirtækja þannig að ekki væri aukið á greiðslujafnaðarvandann og opna markaðsaðgang fyrir innlenda aðila. „En til að slíkar aðgerðir skili á heildina litið þeim árangri sem að er stefnt er mikilvægt að áhrifin á greiðslubyrði erlendra skulda, hvort sem er í erlendum eða innlendum gjaldmiðli, verði á öllum tímum viðráðanleg, að staðinn verði vörður um skuldastöðu ríkissjóðs, lánshæfismat og aðgang að erlendum lánamörkuðum og að aðrir innlendir aðilar hafi aðgang að erlendum lánamörkuðum á viðráðanlegum kjörum í framhaldinu.“

Þá lagði Már áherslu á að aðeins eitt tækifæri fengist til þess að gera upp bú föllnu bankanna enda um óafturkræfa gerninga að ræða og því mikilvægt að vel tækist til. „Það breytir því ekki að eins og ég hef sagt áður eykst kostnaður við höftin með tímanum og mikilvægt varðandi framfarir og hágæða hagvöxt að þau verði losuð fyrr en síðar. Þá er mikilvægt að við lærum það af reynslu okkar og annarra að óheftum fjármagnshreyfingum fylgir ekki einungis ávinningur heldur einnig áhætta. Viðeigandi varúðarreglur og aðrar ráðstafanir verða að vera til staðar til að mæta henni þegar skrefið verður stigið.“

Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK