Vill meira en 11 milljarða fyrir QuizUp

Þorsteinn B. Friðriksson hjá Plain Vanilla telur fyrirtækið vera meira …
Þorsteinn B. Friðriksson hjá Plain Vanilla telur fyrirtækið vera meira virði en 11 milljarða. Ómar Óskarsson

Þorsteinn Friðriksson, forstjóri og stofnandi Plain Vanilla sem gefur út leikinn QuizUp, myndi ekki selja fyrirtækið fyrir 100 milljónir dala, eða um 11 milljarða króna. Hann myndi aftur á móti skoða 1 milljarðs dala tilboð. Þetta kom fram í viðtali við hann á Fox Business. 

Sagt var frá leiknum og rætt umtekjumódel hans, en Plain Vanilla hóf nýlega samstarf við stór vörumerki eins og Game of Thrones og Google um spurningaflokka sem greitt er fyrir að setja inn. 

Þorsteinn sagði í þættinum að þetta væri mun skynsamlegra en stórar auglýsingar í forritum og leikjum sem tækju mikið pláss og væru fyrir notendunum. Þessi leið sem þeir hefðu farið gerði það aftur á móti að verkum að nýtt efni væri búið til sem notendur hefðu áhuga á og væru tilbúnir að keppa í og skoða þannig aftur og aftur.

Í þættinum var Þorsteinn spurður út í hversu mikið hann ætti í Plain Vanilla. Hann vildi ekki gefa upp nákvæman hlut, en játaði því að hann ætti meira en 5%. Sagði hann það góða við fjárfestingaumhverfið í Bandaríkjunum vera að fjárfestar vildu stofnendur með í spilinu. „Þeir vilja að frumkvöðlarnir að eigi stóran hlut í fyrirtækjunum því það ýtir undir að þeir geri vel,“ sagði Þorsteinn.

Að lokum spurði þáttarstjórnandinn Þorstein hvort hann myndi selja fyrirtækið í heild fyrir 100 milljónir dala ef það væri í boði. Þorsteinn neitaði því og sagði að miklir uppbyggingarmöguleikar væru framundan þar sem horft væri til þess að byggja leikinn betur upp sem samfélagsmiðil. Þegar hann var aftur á móti spurður út í hvort hann myndi breyta um skoðun ef upphæðin væri einn milljarður dala sagði Þorsteinn að þá myndi hann skoða málið vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK