Steinþór varar við dönsku leiðinni

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir varhugavert að stökkva beint í …
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir varhugavert að stökkva beint í dönsku leiðina með íbúðalán. Ernir Eyjólfsson

Kjörin sem bjóðast á erlendum lánamörkuðum hafa verið að batna, en þau eru enn ekki ásættanleg og eru verri en vextirnir á Landsbankabréfinu. Þetta segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, en í morgun kynnti bankinn afkomu fyrsta fjórðungs. Í samtali við mbl.is sagði Steinþór að hann gerði ráð fyrir að vextir myndu áfram lækka og að á komandi árum gæti bankinn endurfjármagnað sig á hagstæðari kjörum en nú er. Sagði hann að ætlunin væri í sjálfu sér ekki að greiða niður þá upphæð sem bankinn skuldar vegna Landsbankabréfsins, heldur frekar að endurfjármagna hana. 

Aldrei meiri markaðshlutdeild

Steinþór segir að fyrsti ársfjórðungur hafi ekki verið sérstaklega jákvæður, en að framundan séu stór verkefni. Nefndi hann á fundinum áframhaldandi vinnu við endurútreikninga, höfuðstólslækkun og endurfjármögnun. Til viðbótar sagði hann bankann í mikilli sókn á einstaklingsmarkaði, en hann komst í fyrsta sinn frá hruni yfir 35% markaðshlutdeild. Þá sagði hann að sókn væri á íbúðalánamarkaðinum, en hann vildi ekki gefa upp hvort farið væri út í nýja tegund lána.

Varar við dönsku leiðinni

Aðspurður út í hvort bankinn myndi bregðast við ef farin yrði svokölluð dönsk leið, sem kynnt var í til­lög­um verk­efn­is­hóps um framtíðar­skip­an hús­næðismála nýlega, sagði Steinþór að fara þyrfti varlega. „Menn þurfa að fara varlega með danska kerfið. Danir skulda manna mest, mun meira en Íslendingar. Við þurfum að fara varlega í að stökkva inn í danska kerfið og búa ekki til nýjan vanda inn í framtíðina,“ sagði Steinþór.

Starfsmönnum mun fækka

Starfsmannafjöldi Landsbankans hefur haldist nánast óbreyttur síðan á síðasta ári og segir Steinþór að það helgist af því að enn sé unnið við endurútreikninga og að fyrir liggi vinna við höfuðstólslækkunina. Segist hann gera ráð fyrir að starfsmönnum muni fækka á næstu árum þegar þær aðgerðir séu liðnar. „Þegar því líkur er ekki þörf fyrir þær hendur og því sjáum við fyrir fækkun á næstu árum,“ segir Steinþór. Hann sagðist þó ekki sjá mikla breytingu á útibúakerfinu, helst væri horft til höfuðstöðvanna og breytinga þar á. Sagði hann að þúsundir fermetra gætu sparast með að koma þeim í nýtt húsnæði. Enn er þó ekkert komið á hreint með ákvörðun um hvort farið verði í þá uppbyggingu, en Steinþór segir að það muni liggja fyrir á næstu mánuðum.

Ný verkefni í gangi

Ný útlán bankans á ársfjórðungnum námu 33 milljörðum, en heildarútlán jukust aðeins um einn milljarð. Steinþór segir að mörg fyrirtæki séu enn að greiða upp lán, en að þessi aukning sýni engu að síður að það séu teikn um að ný verkefni séu komin í gang. „Við sáum þessa þróun á seinasta ári og þetta er áframhald á því og þá er líka mikil sókn í íbúðalánum,“ segir hann.

Í árshlutareikningnum kemur fram að virðisaukning hjá bankanum sé rúmlega 4,6 milljarðar. Steinþór segir að í því sambandi hafi ekki verið gerð stór varúðarfærsla vegna verðtryggingarmálsins eða yfirdráttardómsins. „Við teljum að verðtryggingin sé lögleg á Íslandi en við verðum að bíða og sjá hvað dómar koma með,“ segir hann.

Landsbankabréfið svokallaða hefur mikið verið í umræðunni upp á síðkastið. LBI og Landsbankinn sömu um endurfjármögnun á því nýlega, en það er undir því komið hvort LBI fái undanþágu frá fjármagnshöftum. Steinþór vill ekki svara því hvort hann geri ráð fyrir að heimildin fáist fyrir samningnum hjá Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu, en segir að Landsbankinn sé nú búinn að gera það sem hann geti gert. Ef undanþágan fáist ekki þurfi aftur á móti að finna betri leið þegar þar að kemur.

Landsbankinn hagnaðist um 4,3 milljarða á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við …
Landsbankinn hagnaðist um 4,3 milljarða á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við um 8 milljarða í fyrra. hag / Haraldur Guðjónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK