Nýjasta milljarða fyrirtækið í Kísildal

Í mörgum stórborgum heimsins eru þjónustur eins og Uber byrjaðar …
Í mörgum stórborgum heimsins eru þjónustur eins og Uber byrjaðar að taka við af hefðbundnum leigubílaþjónustum. Þar pantar fólk bílana með því að smella á einn takka í símanum og bíllinn kemur svo innan stundar. AFP

Á síðustu árum hafa nokkur frumkvöðlafyrirtæki frá Kísildal náð því að komast í svokallaða 11 tölu deild. Það þýðir að virði þeirra meðan á fjármögnunarferli stendur fer yfir 10 milljarða Bandaríkjadala. Síðasta fyrirtækið til að ná þessu marki var Uber, en það er leigu- og lúxusbílaþjónusta þar sem notendur ýta á einn takka á símanum og næsti bíll kemur beint á staðsetninguna þar sem viðkomandi er. Menn virðast þó skiptast upp í hópa þegar kemur að virðismatinu núna, en það er margfalt veltu fyrirtækisins og gerir ráð fyrir gífurlegri veltuaukningu næstu misseri og ár. Margir spyrja sig hvort þetta sé skýrasta dæmið um bólumyndun á þessum markaði, eða hvort raunveruleg verðmæti séu í þessum nýju tæknifyrirtækjum.

Nú þegar í 37 löndum

Uber var stofnað fyrir fjórum árum af Travis Kalanick, en hann er í dag 37 ára. Hann hafði áður komið af stað tveimur tæknifyrirtækjum, eitt sem hafði farið á hausinn og annað sem hann hafði selt á 19 milljón dali. Uber virðist aftur á móti vera stóra stökkið hans, því þjónusta fyrirtækisins hefur þanist hratt út undanfarin ár og eru bílaþjónustan í boði í 128 borgum í 37 löndum. 

Metið á 17 milljarða dali

Fyrir tæplega ári síðan fór fyrirtækið í gegnum nýtt ferli af fjármögnun til að standa straum af kostnaði við útþenslu fyrirtækisins. Náði fyrirtækið að safna um 360 milljón dölum og var í kjölfarið verðmetið á um 3,5 milljarða dali. Meðal stærstu fjárfesta í þessari atrennu var Google Ventures General Partner, en það er einn af fjárfestingaörmum Google. 

Um daginn kláraði Uber svo síðasta fjármögnunarferlið sitt og safnaði saman 1,2 milljörðum dala frá fjárfestum og var í kjölfarið metið á 17 milljarða dali. Með þessu er fyrirtækið orðið verðmætara en bílaleigufyrirtækin Hertz Global Holdings eða Avis Budget. Þá er þetta álíka upphæð og Twitter og LinkedIn eru verðmetin á. Til samanburðar þá var íslenska leikjafyrirtækið Plain Vanilla metið á rúmlega 20 milljónir dala við hlutafjáraukningu þess um síðustu áramót og landsframleiðsla Íslands var um 15 milljarðar dala á síðasta ári.

Er þetta hluti af sprotabólu í Kísildal?

Samkvæmt Dow Jones Venture Source var fjárfest í sprotafyrirtækjum fyrir 10,7 milljarði dala í Bandaríkjunum á fyrstu þremur mánuðum ársins, en það er hæsta upphæð á þessu tímabili í þrjú ár. Margir hafa því haldið því fram að um bólumyndun sé að ræða á þessum vettvangi og benda til þess að enn muni miklu á verðmæti fyrirtækjanna og tekjustreymi þeirra.

James Ball, blaðamaður hjá breska blaðinu The Guardian, segir t.a.m. að virðismatið sé enn ein fantasíuveröldin úr Kísildal og að engin innistæða sé fyrir því. Bendir hann á að um sé að ræða gífurlega fjármuni, en 18 milljarðar dala nægja til að byggja One World Trade Center bygginguna sex sinnum eða myndu duga til að koma einhverjum í 21. sæti á listanum yfir ríkustu einstaklinga Bandaríkjanna.

En hans helsta gagnrýni beinist þó að þeirri staðreynd að virði Uber er metið sem 90 sinnum velta þess í dag. Bendir hann á að velta þess þurfi að margfaldast á næstu árum til að eiga möguleika á að standa undir væntingum og að erfiður markaður fyrir leigubíla um allan heim geri þetta að miklu áhættuspili sem erfitt er að réttlæta að sé verðmetið svo hátt.

Allt of lágt metið

Andrew Ross Sorkin, blaðamaður á New York Times er á öðrum máli en Ball og segir að þrátt fyrir að þetta verðmat hafi hreyft heldur betur við fólki, þá sé það enn of lágt. Segir hann að ekki verði horft fram hjá því hversu stór leigubílamarkaðurinn sé í raun um allan heim og að í Bandaríkjunum einum og sér sé velta leigubíla um 11 milljarðar dala á ári. Þá hafi tölur sem birst hafa um Uber sýnt fram á að meðaleyðsla hvers notenda sé umtalsvert meiri en hjá meðalnotenda venjulegra leigubíla. Þá hafi Uber tvöfaldað tekjur sínar á sex mánaða fresti undanfarin ár og ekki sjái fyrir endann á því.

Áhrif á leigubílamarkaðinn í heild

Hvernig sem þetta ævintýri fer verður áhugavert að fylgjast með því hvaða áhrif þetta mun hafa á leigubílamarkaðinn í heild, því þetta er fyrsta snjalllausnin fyrir leigubíla sem nær svona mikilli útbreiðslu og þá eiga bílstjórarnir eigin bíla og er Uber einungis miðlunartæki um staðsetningu farþega. Fyrir þjónustuna hefur fyrirtækið tekið um 20% þjónustugjald, en þeir benda á að bílstjórar hjá fyrirtækinu sé með mun hærri tekjur en aðrir leigubílstjórar í stórborgum á borð við New York. 

En það eru ekki öll ljón úr veginum, því mörg stéttarfélög leigubílsstjóra hafa séð þessa þróun sem ógn og telja að unnið sé gegn hagsmunum stéttarinnar. Hafa þau sagt að bílstjórarnir hafi ekki réttindi til aksturs og reyna að koma í veg fyrir að leigubílar sem ekki séu á venjulegum leigubílastöðvum séu notaðir í slíkan akstur.

Gulir leigubílar á götum New York. Fyrirtækið Uber er þegar …
Gulir leigubílar á götum New York. Fyrirtækið Uber er þegar byrjað að breyta því hvernig fólk notar leigubíla. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK