Bankar geta ekki án ríkisvaldsins verið

Barry Eichengreen á ráðstefnunni í Hörpu.
Barry Eichengreen á ráðstefnunni í Hörpu. mbl.is/Þórður

Það er ábyrgðarlaust að halda því fram að fjármálastofnanir og verðbréfamarkaðir geti starfað og þróast af sjálfsdáðum – án opinbers eftirlits. Sterk og náin tengsl á milli stjórnvalda og fjármálamarkaða eru óhjákvæmileg, þó svo að mörgum geti hugnast þau illa, og hefur það oft á tíðum verið fyrir tilstilli stjórnvalda að sterkir og stöndugir bankar verða til, að sögn Barrys Eichengreens, prófessors í hagfræði og stjórnmálafræði við Háskólann í Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Hann flutti erindi á ráðstefnu Seðlabanka Íslands og SUERF, sem er evrópskur umræðuvettvangur fyrir peninga- og fjármál, í Hörpu í gærmorgun. Á ráðstefnunni var fjallað um endurbata eftir fjármálakreppuna og uppbyggingu fjármálageirans.

Ógna stöðugleika kerfisins

Eichengreen sagði að stjórnvöld gegndu mikilvægu hlutverki í efnahagslífi viðkomandi ríkja. Þeirra hlutverk væri meðal annars að byggja upp sjálfbært fjármálakerfi, sem gæti þjónað sjálfu hagkerfinu, og móta umhverfi, byggt á öflugum lagaramma, reglum og leiðbeinandi tilmælum, sem bankar og aðrar fjármálastofnanir geta starfað í.

En þó svo að fjármálastofnanir geti ekki án ríkisvaldsins verið sagði Eichengreen að íþyngjandi reglur stjórnvalda gætu komið í veg fyrir framþróun fjármálakerfisins og jafnvel ógnað stöðugleika þess. Meðalhófið væri dyggð.

Í erindi sínu vakti hann jafnframt athygli á því að bankar og verðbréfamarkaðir ættu ekki að eiga í keppni sín á milli. „Þeir bæta hverjir aðra upp. Bankar koma ekki í stað markaða og á sama hátt koma markaðir ekki í stað banka,“ sagði Eichengreen. Því skilvirkari sem bankakerfið yrði, þeim mun þróaðri yrðu þá fjármálamarkaðirnir.

Hann bætti því ennfremur við að bankar og fjármálamarkaðir gegndu oft á tíðum ólíku hlutverki í hagkerfinu. Bankarnir nytu sín best í þeim hluta hagkerfisins þar sem traust og náin tengsl ríktu á milli viðskiptavina, á meðan fjármálamarkaðir mættu aðallega þörfum stórra lánveitenda.

Mikilvægt að læra af sögunni

Eichengreen fjallaði um framþróun bankakerfisins í gegnum árin og sagði að alls ekki mætti gleyma lærdómi sögunnar í umræðum um núverandi stöðu kerfisins. „Stefnusmiðir ættu að horfa til sögunnar og læra af henni, en ekki dusta ryki yfir hana,“ sagði hann. Læra þyrfti af mistökum í fortíðinni til að koma í veg fyrir að þau gerðust aftur.

Sem dæmi um framþróun bankakerfisins sagði Eichengreen að í byrjun nítjándu aldar hefðu um 80% af útlánum breskra banka farið til vina og vandamanna bankastjórans eða annarra háttsettra bankamanna. En eftir því sem bankarnir drógu úr þessum svokölluðu innherjalánum urðu þeir sterkari og lifðu jafnframt lengur. Útlánastefnan varð traustari.

Í kjölfar fjármálakreppunnar hafa seðlabankar víðs vegar um heim einbeitt sér að nýju markmiði sem miðast við að fyrirbyggja að kerfisáhætta byggist upp í fjármálakerfinu. Markmiðið hefur verið kallað þjóðhagsvarúð og er þá átt við stöðugleika kerfisins í heild. Eichengreen sagði mikilvægt að seðlabankar einbeittu sér að því að þróa skilvirkari þjóðhagsvarúðartæki. Með slíkum tækjum er meðal annars átt við þak á veðsetningarhlutföll, takmarkanir á útlán, hertar kröfur um eigið fé og svo framvegis.

Hann benti jafnframt á mikilvægi þess að seðlabankar útvíkkuðu reglur sínar þannig að þær giltu einnig fyrir þær fjármálastofnanir sem flokkast ekki sem hefðbundnir viðskipta- eða fjárfestingarbankar. Seðlabankar ættu að nota stýritæki sín og reglugerðir til að fyrirbyggja að kerfisáhætta skapaðist í fjármálakerfinu. Þeir ættu að sama skapi ekki að beita peningastefnu til að koma í veg fyrir hugsanleg áföll nema öll önnur ráð væru úti.

Afleiðingarnar afdrifaríkari

Í erindi sínu sagði Már Guðmundsson, bankastjóri Seðlabanka Íslands, að fjármálakreppan sem skall á haustið 2008 hefði haft mun afdrifaríkari afleiðingar í för með sér en nokkurn hafði órað fyrir. Hann rifjaði upp að á ráðstefnu SUERF fyrir tíu árum hefði aukin kerfisáhætta innan fjármálakerfisins verið til umræðu. Þá hefðu menn lýst þungum áhyggjum af því. Áhættan hefði hins vegar aukist til muna eftir ráðstefnuna, bæði hér á landi sem og í alþjóðlegu tilliti.

Staðan nú væri sú að enn ætti eftir að leysa á viðunandi hátt vandamál banka sem taldir eru of stórir til að falla. Það væri verkefni sem þyrfti að ráðast í.

Már Guðmundsson, bankastjóri Seðlabanka Íslands.
Már Guðmundsson, bankastjóri Seðlabanka Íslands. mbl.is/Þórður
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK