Strauja kortin sem aldrei fyrr

Ferðamenn strauja greiðslukortin sem aldrei fyrr. Kortaveltujöfnuður var 5,4 milljarðar …
Ferðamenn strauja greiðslukortin sem aldrei fyrr. Kortaveltujöfnuður var 5,4 milljarðar í júní mánuði og notuðu erlendir ferðamenn kort sín fyrir 13,5 milljarða. mbl.is/Golli

Kortaveltujöfnuður Íslendinga hefur aldrei verið meiri í júní, en þá nam hann 5,4 milljarði. Þetta skýrist meðal annars af mikilli aukningu í kortaveltu útlendinga hér á landi, en hún jókst um 24% milli ára og nam 13,5 milljörðum.

Greiningardeild Íslandsbanka segir þessa aukningu ekki koma á óvart enda hefur velta aukist á milli ára í hverjum einasta mánuði allt frá því í október 2010, eða samfellt 45 mánuði í röð. Á því tímabili hefur aukningin jafnframt verið að jafnaði 24% á milli ára í mánuði hverjum. 

Á fyrstu sex mánuðum ársins hafa erlendir ferðamenn náð að strauja kortin sín fyrir 47,5 ma.kr. Í krónum talið er þetta 27% hærri fjárhæð en þeir straujuðu kortin sín fyrir á fyrstu sex mánuðum ársins í fyrra, en 60% hærri fjárhæð og á sama tímabili 2012.

Þetta rímar við tölur Ferðamálastofu um brottfarir erlendra ferðamanna frá landinu um Keflavíkurflugvöll (KEF). Samkvæmt þeim voru erlendir ferðamenn um 402 þúsund á fyrstu sex mánuðum ársins, sem er 29% fjölgun frá sama tímabili í fyrra en 64% fjölgun sé borið saman við sama tímabil 2012.  

Alls nam kortavelta Íslendinga í útlöndum rúmlega 8,1 milljörðum í júní. Var kortaveltujöfnuður, þ.e. mismunur á kortaveltu útlendinga hér á landi og Íslendinga í útlöndum, þar með jákvæður um 5,4 milljarða í mánuðinum. Er hér um langhagfelldustu útkomu þessa jafnaðar frá upphafi í júnímánuði. Má hér til samanburðar nefna að í júní í fyrra var jöfnuðurinn jákvæður um 3,8 milljarðar og árið þar á undan jákvæður um 2,6 milljarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK