Vöxturinn ekki eingöngu vegna hafta

Flestir fagfjárfestasjóðir eru fasteignasjóðir á vegum banka.
Flestir fagfjárfestasjóðir eru fasteignasjóðir á vegum banka. mbl.is/Ómar

Gunnar Baldvinsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segir ekki rétt að setja fjárfestingar lífeyrissjóðanna í búning skuggabankastarfsemi. Lífeyrissjóðirnir hafi heimildir til að kaupa skráð skuldabréf sem eru bæði útgefin af eftirlitsskyldum aðilum og öðrum sem lúta ekki opinberu eftirliti.

Það er jafnframt mat hans að rangt sé að líta á það sem neikvæðan hlut að verðmætar eignir færist úr lánasöfnum banka til fagfjárfesta í eigu lífeyrissjóða. Það sé til hagsbóta fyrir sjóðfélaga.

Fram kemur í grein Harðar Tulinius, sérfræðings á vettvangs- og verðbréfaeftirlitssviði Fjármálaeftirlitsins (FME), sem birtist í nýjasta tölublaði Fjármála og Morgunblaðið greindi frá í gær, að skráðar skuldabréfaútgáfur fagfjárfestasjóða hafi aukist umtalsvert. Það sé til marks um uppgang í skuggabankastarfsemi á fjármálamarkaði.

Í maíhefti Peningamála Seðlabanka Íslands segir að nokkur vöxtur hafi verið í skuggabankastarfsemi síðustu ár. Til að mynda hafi hrein ný útlán stóru viðskiptabankanna þriggja til fasteignafélaga dregist saman um einn milljarð árið 2013, en fagfjárfestasjóðir gáfu þá út skuldabréf í tengslum við fasteignaviðskipti fyrir tæplega sex milljarða króna. Skuldabréfin námu sautján milljörðum árið á undan.

Sambærileg þróun erlendis

Bendir Hörður á að þessi öri vöxtur í starfsemi fagfjárfestasjóða stafi af því að það sé þörf á fjárfestingakostum fyrir lífeyrissjóði til að ráðstafa þeim fjármunum sem þeir hafa yfir að ráða á sem skilvirkastan hátt.

Gunnar segir hins vegar að vöxturinn komi ekki eingöngu til vegna gjaldeyrishaftanna, og þar með færri fjárfestingakosta sjóðanna, heldur hafi sambærileg þróun átt sér stað erlendis. Það sé vegna þess að atvinnulífið sé í stöðugri leit að hagstæðri fjármögnun. „Það er jákvætt fyrir efnahagslífið,“ segir hann.

Í sinni einföldustu mynd er skuggabankastarfsemi samheiti yfir miðlun fjármagns utan hins leyfisskylda viðskiptabankakerfis.

Gunnar nefnir ennfremur að lífeyrissjóðirnir séu ekki gerendur í þeirri þróun sem hefur átt sér stað hér á landi. Sjóðirnir hafi ekki haft frumkvæði að stofnun sjóða og rekstri þeirra. „Í flestum tilvikum er um að ræða fasteignasjóði á vegum banka sem eru reknir af félögum í eigu bankanna eða á vegum þeirra. Þar eru bankarnir að sinna þeirri þjónustu að leiða saman fjárfesta og lántaka,“ segir Gunnar og bætir við:

„Starfsemi fasteignasjóða er ekki ósvipuð og starfsemi fasteignafélaga. Enginn talar um skuggabankastarfsemi þegar félög eins og Eik, Landfestar, Reitir og fleiri gefa út skuldabréf.“

Í grein sinni bendir Hörður á að þessi starfsemi taki viðskipti frá hefðbundinni, eftirlitsskyldri útlánastarfsemi. Mikilvægt sé að endurskoða heimildir lífeyrissjóða þannig að fjárfestingar þeirra „séu á yfirborðinu en ekki settar í annan búning til að þær uppfylli formkröfur laga og reglna óháð eðlilegum áhættumörkum“.

Gera strangar kröfur

Að sögn Gunnars gera lífeyrissjóðir strangar kröfur til þeirra fagfjárfestasjóða sem þeir fjárfesta í. Sjóðirnir starfi til dæmis eftir fyrirfram ákveðnum skilmálum um heimildir, fjárfestingarstefnu og upplýsingagjöf, eigi fulltrúa í fjárfesta- eða ráðgjafaráðum og fylgist þannig með að fagfjárfestasjóðir fari eftir skilmálum og velji eignir í samræmi við fjárfestingarstefnu. „Þá eru skuldabréf fagfjárfestasjóða með skilmálum sem tryggja rétt skuldabréfaeigenda meðal annars um uppgreiðslu skuldar, gangi fagfjárfestasjóður að undirliggjandi eignum,“ segir Gunnar.

Hörður sagði í grein sinni að bankar með almennan rekstur gætu ekki keppt í vaxtakjörum við sjóði sem hefðu nánast enga yfirbyggingu og þyrftu ekki að standast þær ströngu kröfur sem eftirlitsaðilar gera til banka. Hætt væri við því að verðmætustu eignirnar með bestu tryggingarnar færðust úr bönkunum og til fagfjárfestasjóða.

Aðspurður segir Gunnar að rangt sé að líta á það sem neikvæðan hlut. Það sé einfaldlega til hagsbóta fyrir sjóðfélaga.

Gunnar Baldvinsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða.
Gunnar Baldvinsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða.
mbl.is/Ómar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK