Umskipti í rekstri Nýherja

Nýherji.
Nýherji. Ljósmynd/Nýherji

Hagnaður Nýherja á öðrum ársfjórðungi nam 69 milljónum króna, samanborið við 862 milljóna króna tap á sama tímabili í fyrra. Alls nam hagnaður félagsins 125 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins, en félagið tapaði 1.012 milljónum króna á fyrri helmingi seinasta árs.

Nýherji birti uppgjör sitt fyrir annan fjórðung ársins í dag. Þar kemur fram að vöru- og þjónustusala félagins hafa aukist lítillega milli ára og numið 2.853 milljónum króna. Var salan 5.712 milljónir króna á fyrri árshelmingi, samanborið við 5.470 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.

EBITDA félagsins, þ.e. rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, nam 207 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi og 398 milljónum á fyrstu sex mánuðum ársins.

Haft er eftir Finni Oddssyni, forstjóra Nýherja, í afkomutilkynningu að rekstur félagsins sé að styrkjast og að afkoma á öðrum ársfjórðungi sé í takt við væntingar. Jákvæð afkoma sé hjá öllum félögum samstæðunnar á fyrri helmingi árs.

„Rekstur Applicon á Íslandi er stöðugur og skilar ágætri afkomu og hagnaður er af rekstri Applicon í Svíþjóð, sem eru mikilvæg umskipti eftir taprekstur síðustu ár. Umtalsverður tekjuvöxtur er áfram hjá TM Software, einkum vegna mikillar sölu á Tempo hugbúnaði, sem nú er seldur til ríflega 100 landa í gegnum netið. Þessi vöxtur Tempo er okkur afar mikilvægur, allar þær tekjur eru erlendar og hafa aukist um 86% á milli ára. Tæplega helmingur veltu TM Software er því í erlendri mynt,“ segir hann.

Hann bendir jafnframt á að tekjur Nýherja af vörusölu og rekstrarþjónstu á innanlandsmarkaði séu stöðugar en afkoma batni lítillega á miilli ára. Það sé í samræmi við væntingar. Gert sé enn fremur ráð fyrir hóflegum vexti í tekjum og afkomu samstæðunnar á næsta ársfjórðungi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK