„Eymdarvísitalan“ á niðurleið

Eymd landsmanna hefur ekki mælst minni frá árinu 2007, segir …
Eymd landsmanna hefur ekki mælst minni frá árinu 2007, segir greiningardeild Arion banka. mbl.is/Eggert

Hin svokallaða eymdarvísitala er á hraðri niðurleið og hefur eymdin ekki mælst minni frá árinu 2007, að því er fram kemur í umfjöllun greiningardeildar Arion banka um málið. 

Eymdarvísitalan kom fyrst fram á sjónarsviðið á áttunda áratug síðustu aldar, þá sett fram af hagfræðingnum Arthur Okun. Tilgangur vísitölunnar er að meta hvernig hinn hefðbundni borgari hefur það hagfræðilega séð og er hún fundin með því að leggja saman atvinnuleysi og verðbólgu á hverjum tíma, en báðar stærðirnar eru mikilvægir áhrifaþættir í lífi launþega.

Eymdarvísitalan náði hámarki hér á landi árið 1983 en það ár reið holskefla óðaverðbólgu yfir landann. Frá árinu 1991 og fram til ársins 2008 hélst vísitalan nokkuð stöðug og tók hún að jafnaði gildi á milli 4 og 10, að undanskildum fyrsta fjórðungi ársins 2002, þegar það gætti nokkuð meiri eymdar en áður. Í kjölfar fjármálakreppunnar árið 2008 tók vísitalan að hækka hratt og náði hún  hámarki í byrjun árs 2009, einkum vegna mikillar verðbólgu. Síðan þá hefur leiðin legið niður á við, eins og áður sagði.

Greiningardeildin bendir á að eymdarvísitalan hafi sterka neikvæða fylgni við hagvöxt og endurspegli samtímaumsvif í hagkerfinu vel. Þannig hækki eymdarvísitalan og eymd aukist í samdrætti en lækki aftur þegar umsvif taka að aukast. Þá sé samspil væntinga og eymdar nokkuð augljóst en greiningardeildin segir að mikil neikvæð fylgni sé á milli eymdarvísitölunnar og væntingavísitölu Gallup.

„Það þarf ekki að koma neinum á óvart en hærri eymdarvísitala þýðir að annaðhvort hafi framfærslukostnaður hækkað eða fleiri misst vinnuna eða hvort tveggja og því ekki að undra að fólk dragi úr væntingum sínum á þannig tímum,“ segir í umfjöllun greiningardeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK